Körfubolti

Hafa á­hyggjur af Haukaliðinu: „Mér finnst þær ekki glaðar“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tinna Guðrún Alexandersdóttir er ein af leikmönnum Hauka sem hafa ekki náð að sýna sitt rétta andlit undanfarið.
Tinna Guðrún Alexandersdóttir er ein af leikmönnum Hauka sem hafa ekki náð að sýna sitt rétta andlit undanfarið. Vísir/Vilhelm

Haukakonur eru bara í sjötta sæti Subway deildar kvenna í körfubolta eftir fyrstu sex leikina sem kemur mörgum mikið á óvart. Körfuboltakvöld ræddi gengi liðsins.

„Haukaliðið leit ekki vel út í gær. Við höfum séð mismunandi frammistöðu hjá þeim. Þær voru frábærar á móti Val á Hlíðarenda fyrir nokkrum vikum en aðra duttu þær niður á móti Njarðvík. Þurfum við að hafa áhyggjur af þessu Haukaliði,“ spurði Hörður Unnsteinsson, umsjónarmaður Subway Körfuboltkvölds kvenna.

„Já ég held það alveg smá. Mér finnst þær ekki glaðar og það er ekki gaman hjá þeim. Þær eru ekki duglegar. Það er ein og ein sem er að gefa allt sitt í þetta en heilt yfir þá held ég að við þurfum að afa smá áhyggjur,“ sagði Ingibjörg Jakobsdóttir, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

Haukarnir hafa aðeins unnið þrjá af fyrstu sex leikjum tímabilsins og töpuðu á móti Grindavík á heimavelli sínum í síðasta leik.

„Það sem mér finnst mesta áhyggjuefnið í þessu er að Lovísa (Henningsdóttir), Þóra (Kristín Jónsdóttir) og Tinna (Guðrún Alexandersdóttir) eru með rosalega fá stig í þessum leik. Við þurfum meira frá þeim. Þóra er leikstjórnandi hjá þeim og hún getur líka stjórnað þessu. Ég vil sjá hana stjórna þessu aðeins betur,“ sagði Ingibjörg.

„Ég held að það trufli Þóru aðeins að hún er ekki að sjá um sóknarleikinn sjálf. Hún þekkir ekki alveg sitt hlutverk og það lækkar sjálfstraustið hjá henni,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir, sérfræðingur Körfuboltakvölds. Þær eru síðan á því að Keira Robinson sé of mikið með boltann.

„Þessar stelpur, Þóra, Lovísa, Solla (Sólrún Inga Gísladóttir), Rósa (Björk Pétursdóttir). Þær eru búnar að spila saman síðan þær voru í yngri flokkum en það er ekkert ‚chemistry',“ sagði Ólöf Helga.

„Það er mjög skrýtið,“ sagði Ingibjörg.

„Þetta eru góðir skotmenn sem hafa verið með fimmtíu prósent skotnýtingu á tímabili en geta ekki keypt sér sniðskot núna,“ sagði Ólöf.

Það má horfa á umræðuna um Haukaliðið hér fyrir neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld kvenna: Umræða um Haukaliðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×