Körfubolti

„Fokkið þið ykkur, ég ætla að vera með 30 stiga mann á bekknum“

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifar
Mate Dalmay var léttur í leikslok.
Mate Dalmay var léttur í leikslok. Vísir/Diego

Það má svo sannarlega segja að Mate Dalmay, þjálfari Hauka, hafi verið hinn hressasti eftir sigur gegn sínum fyrrum lærisveinum í Hamri í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld.

„Leikurinn var mjög tvískiptur. Fyrsta korterið var hundleiðinlegt, göngubolti sem var örugglega hundleiðinlegt að horfa á. Lélegar varnir en á sama tíma ekki mjög beinskeyttar sóknir. Svo fórum við aðeins í gang og það var gaman í svona fimm mínútur. Þá spiluðum við eins og við viljum spila,“ sagði Mate eftir leikinn.

„Svo fundu þeir taktinn í seinni hálfleik og byrjuðu að setja alls konar skot. Björn Ásgeir, Jose og Ibu voru að spila frábærlega í sókn. Við þurfum að bæta okkur í vörn, það er alveg á hreinu. Það var orðið svolítið gaman hjá þeim í lokin og við hleyptum þeim aðeins of nálægt.“

Haukar lentu tíu stigum undir í fyrri hálfleik og menn virkuðu andlausir. Þá tók Mate leikhlé og fór vel yfir málin.

„Það var bara svona hárblásaradæmi. Menn voru alltof langt frá mönnunum sínum og þegar við vorum nálægt þeim þá vorum við ítrekað að hlaupa þá niður, að hleypa þeim á vítalínuna. Við þurfum að finna línuna þannig að við séum agaðir en samt fastir fyrir og duglegir. Við viljum ekki vera vitlausir að hlaupa menn niður af því að við erum of spenntir,“ sagði Mate.

Osku Heinonen var stórkostlegur í liði Hauka og setti hvern þristinn á fætur öðrum. Hann endaði með 29 stig eftir að hafa byrjað á bekknum. Af hverju var hann á bekknum í byrjun leiks?

„Það eru alltaf einhverjir meistarar í öllum hlaðvörpum og sjónvarpsþáttum að tala um að fá við fáum ekki neitt af bekknum þannig að ég ákvað bara að segja: „Fokkið þið ykkur, ég ætla að vera með 30 stiga mann á bekknum. Þá getur enginn mætt í körfuboltakvöld og sagt að við fáum ekki neitt af bekknum,““ sagði Mate léttur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×