Um er að ræða þriðja leik Breiðabliks í Sambandsdeildinni en fyrir hefur liðið tapað báðum leikjum sínum í riðlinum. Fyrst gegn Maccabi Tel Aviv á útivelli og svo hér heima gegn úkraínska liðinu Zorya Luhansk.
„Þetta leggst bara vel í okkur. Það er komin mikil tilhlökkun. Við erum að fara mæta sterku liði í Gent,“ segir Höskuldur í samtali við Vísi.
Áður en Breiðablik hélt yfir til Belgíu millilenti liðið í Skotlandi. Æfði þar og spilaði æfingarleik gegn varaliði Glasgow Rangers um síðustu helgi. Leik sem lauk með 3-2 sigri Blika.
„Ég held að þjálfarateymið hafi bara hitt naglann á höfuðið með því að fá þennan leik fyrir okkur af því að það voru alveg liðnar þrjár vikur frá því að Besta deildin kláraðist. Þarna fengum við leik sem var spilaður af mikilli ákefð og hann mun reynast okkur dýrmætur upp á framhaldið að gera.“
Með hvaða hugarfari fara Blikar inn í þennan leik?
„Við náttúrulega stefnum bara að því að vinna þennan leik í grunninn. Við áttum okkur alveg á því að við komum inn sem litla liðið í þennan leik. Gent er massíft lið og heimaliðið í þessari viðureign en við höfum þá trú á okkur að sama hver andstæðingurinn er, sama á hvaða velli leikurinn er spilaður, getum við alltaf gefið alvöru leik og ef við nýtum okkar tækifæri vel þá held ég að við getum alveg náð í góð úrslit.“
Leikur Gent og Breiðabliks í Sambandsdeild Evrópu verður sýndur í beinni útsendingu á sportrásinni Vodafone Sport og hef útsending klukkan 16.35.