Innlent

Á­kveðinn ó­mögu­leiki í ný­liðun í land­búnaði

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Steinþór Logi Arnarsson er formaður Samtaka ungra bænda
Steinþór Logi Arnarsson er formaður Samtaka ungra bænda aðsend

Formaður ungra bænda segir nýliðun í landbúnaði nánast ómögulega við núverandi aðstæður. Þung staða sé í greininni og hafa ungir bændur því boðað til baráttufundar til að berjast fyrir lífi sínu. 

Yfirskrift fundarins er: Laun fyrir lífi ungra bænda og íslenskra sveita og er haldinn vegna þungrar stöðu í greininni.

„Við gerum það ekkert að gamni okkar að halda svona baráttufund heldur stöndum við bara frammi fyrir því að það er ákveðinn ómöguleiki í nýliðun í landbúnaði,“ sagði Steinþór Logi Arnarsson, formaður Samtaka ungra bænda.

Króuð út í horn

Hvað er það helst sem gerir þetta svona erfitt? 

„Það hefur kannski verið hægt sígandi afkomuvandi síðustu ár og jafnvel yfir lengra tímabil og það hefur kannski ekki verið mikið afgangs. Síðustu tvö ár hafa aðföng hækkað verulega og vaxtastigið núna er það sem setur naglann í kistuna hjá okkur og í raun ekkert svigrúm til að takast á við það og við erum orðin króuð úti í horni hvað það varðar.“

Hann segir að endurhugsa þurfi fjármögnun í landbúnaði.

„Að hver kynslóð þurfi ekki að klífa sömu brekkuna sem er núna ókleifur hamar og það myndi veita okkur svigrúm líka til að nýta öll þau tækifæri sem eru þó til staðar í landbúnaði því þetta er kannski eina strikið í reikningnum sem er í mínus en allt annað höfum við í hendi okkar hvað varðar landnæði og heilnæm matvæli og þar fram eftir götum.“

Matvælaráðherra, innviðaráðherra og aðrir þingmenn hafa boðað komu sína á fundinn sem hefst í Salnum í Kópavogi klukkan eitt.

„Þetta verður líka í beinu streymi á Vísi þannig við hvetjum alla til að fylgjast með því þetta varðar okkur öll sem neytendur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×