Fótbolti

Stjóri United gagnrýnir „fáránlegt“ fyrirkomulag Meistaradeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marc Skinner, knattspyrnustjóri Manchester United, vill að breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi Meistaradeildar Evrópu.
Marc Skinner, knattspyrnustjóri Manchester United, vill að breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi Meistaradeildar Evrópu. getty/Rico Brouwer

Manchester United verður ekki í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í fótbolta. Stjóri liðsins segir fyrirkomulag keppninnar fáránlegt.

United tapaði fyrir Paris Saint-Germain, 5-3 samanlagt, í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Skinner finnst fáránlegt að silfurliðin á Englandi og í Frakklandi mætist svona snemma í keppninni.

„Við eigum skilið að vera þarna. Það eru lið sem fóru áfram sem eru ekki nógu góð,“ sagði Skinner eftir 3-1 tap United fyrir PSG á Parc des Princes í gær.

„Það er fáránlegt að við þurfum að spila við PSG á þessu stigi. Við lærum af þessu og komum til baka. Ég vona að eitthvað breytist því við viljum bestu liðin í Meistaradeildinni, ekki bara einhver meðallið.“

United er ekki eina stórliðið sem mistókst að komast í riðlakeppnina. Wolfsburg, silfurlið Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili, tókst það heldur ekki og sömu sögu er að segja af Arsenal.

United fær ekki langan tíma til sleikja sárin eftir vonbrigðin í Meistaradeildinni því á sunnudaginn mætir liðið Everton í 4. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. United er í 6. sæti hennar með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×