Fótbolti

Engin Sveindís þegar Wolfsburg féll óvænt úr keppni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sveindís Jane og Wolfsburg eru úr leik í Meistaradeildinni.
Sveindís Jane og Wolfsburg eru úr leik í Meistaradeildinni. Vísir/Getty

Wolfsburg er úr leik í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu kvenna eftir 2-0 tap gegn Paris FC á heimavelli í dag. Wolfsburg komst alla leið i úrslitaleik keppninnar á síðasta tímabili.

Sveindís Jane Jónsdóttir var ekki í leikmannahópi Wolfsburg í dag en hún hefur átt við meiðsli að stríða. Sveindís lék ekki með Íslandi í landsleikjum fyrr í mánuðinum vegna meiðslanna.

Paris FC lenti í 3. sæti frönsku deildarinnar en Wolfsburg varð þýskur meistari á síðustu leiktíð. Þá fór liðið alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar þar sem það tapaði 3-2 gegn Barcelona.

Fyrri leik liðanna lauk með 3-3 jafntefli í París og einvígið því galopið fyrir leikinn í dag. Paris FC komst í 1-0 í fyrri hálfleik með marki frá Julie Dufour og þrátt fyrir mikla pressu í síðari hálfleiknum tókst Wolfsburg ekki að skora. 

Liðið fékk meðal annars vítaspyrnu á 61. mínútu en Chiamaka Nnadozie varði frá Dominique Janssen.  Einnig fengu þær dauðafæri þegar tæpar tíu mínútur voru eftir en Ewa Pajor skaut framhjá.

Í lokin bætti Louise Fleury við öðru markinu fyrir Paris FC og tryggði liðinu 2-0 sigur og um leið sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Wolfsburg er hins vegar úr leik.

Afar svekkjandi niðurstaða fyrir Sveindísi og liðsfélaga hennar en Wolfsburg hefur síðustu tíu árin alltaf að minnsta kosti komist í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Þá hefur liðið í tvígang farið með sigur af hólmi í keppninni, árin 2013 og 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×