Fótbolti

Vill ekki láta bera sig saman við Haaland: „Mögu­lega besti knatt­spyrnu­maður heims“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rasmus Hojlund hefur ekki áhuga á því að láta bera sig saman við Erling Haaland, en vonast til að komast á sama stall og Norðmaðurinn í framtíðinni.
Rasmus Hojlund hefur ekki áhuga á því að láta bera sig saman við Erling Haaland, en vonast til að komast á sama stall og Norðmaðurinn í framtíðinni. Vísir/Getty

Rasmus Højlund, leikmaður Manchester United og danska landsliðsins, hefur engan áhuga á því að láta bera sig saman við norsku markamaskínuna Erling Braut Haaland, leikmanna Manchester City og norska landsliðsins. Ekki strax í það minnsta.

Hinn tvítugi Højlund gekk í raðir Manchester United frá ítalska félaginu Atalanta í sumar fyrir 75 milljónir evra. Hann hefur nú þegar skorað þrjú mörk í átta leikjum fyrir félagið, en á enn eftir að skora í ensku úrvalsdeildinni.

Þá hefur hann skorað sex mörk í átta leikjum fyrir danska landsliðið og er í byrjunarliði liðsins gegn San Marínó í leik sem nú þegar er hafinn.

Højlund hefur stundum verið líkt við annan norðurlandabúa sem kom eins og stormsveipur inn í ensku úrvalsdeildina fyrir síðasta tímabil, Erling Braut Haaland. Daninn hefur þó engann áhuga á slíkum samanburði eins og er.

„Haaland? Það er betra að vera ekkert að líkja mér við hann. Hann er í sinni eigin deild,“ sagði Højlund í samtali við TV2 í aðdraganda leiks kvöldsins.

„Ég vona að einn daginn komist ég á sama stall og hann, en eins og er finnst mér það of snemmt. Erling er besti framherji heims og mögulega besti knattspyrnumaður heims.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×