Fótbolti

Eng­lendingar fylgja í fót­spor Frakka og herða öryggis­gæsluna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Skipuleggjendur viðureignar Englands og Ítalíu í forkeppni EM 2024 verða með aukna öryggisgæslu í tengslum við leikinn í kvöld í kjölfar voðaverkana í Brussel.
Skipuleggjendur viðureignar Englands og Ítalíu í forkeppni EM 2024 verða með aukna öryggisgæslu í tengslum við leikinn í kvöld í kjölfar voðaverkana í Brussel. Naomi Baker/Getty Images

Öryggisgæslan á Wembley í tengslum í leik Englands og Ítalíu í forkeppni EM 2024 í kvöld verður hert í kjölfar þess að tveir stuðningsmenn sænska landsliðsins voru skotnir til bana í Brussel í gærkvöld.

Það er Sky Sports sem greinir frá, en leik Belgíu og Svíþjóðar var hætt í hálfleik í gær eftir að leikmenn og þjálfarar liðanna fréttu af árásinni. Stuðningsmönnum beggja liða var haldið inni á leikvanginum á meðan árásarmannsins var leitað.

Árásarmaðurinn var svo skotinn til bana af lögreglu snemma í morgun.

Viðbúnaðarstig hefur verið hækkað á efsta stig í Belgíu eftir árásina og nú hefur verið gripið til þess í að minnsta kosti tveimur nágrannalöndum að auka öryggisgæsluna í tengslum við landsleiki sem fara þar fram í kvöld.

Fyrr í dag var greint frá því að Frakkar ætli sér að auka öryggisgæsluna til muna í tengslum við vináttulandsleik Frakklands og Skotlands og nú hafa Englendingar gripið til sama ráðs fyrir leik liðsins gegn Ítalíu í forkeppni EM 2024.

„Við höfum verið í miklu og góðu sambandi við samstarfsaðila okkar, sem og enska knattspyrnusambandið, til að tryggja það að þau sem verða á svæðinu í kringum Wembley geti notið leiksins,“ sagði Gerry Parker, umsjónarmaður leiksins.

„Lögrelumennirnir okkar eru reyndir í því að eiga við stóra viðburði sem þennan og við höfum lagt fram áætlun til að minnka líkur á glæoum og óeirðum, sem og að veita tímanleg viðbrögð við öllum mögulegum uppákomum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×