Innlent

Smá­lægð úr vestri

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Él og skúrir vestanlands en svalt og bjart fyrir austan.
Él og skúrir vestanlands en svalt og bjart fyrir austan. Vísir/Vilhelm

Í dag nálgast smálægð úr vestri landið með breytilega vindátt en vindhraði yfirleitt lítill. Vestlæg eða breytileg átt 3-10 og él, en minnkandin norðvestanátt austast, að sögn Veðurstofu Íslands.

Það hlýnar með morgninum með stöku skúrum eða slydduéljum. Hiti 0 til 6 stig eftir hádegi. Þurrt að kalla á Norðaustur-og Austurlandi og vægt frost. Þar verður yfirleitt þurrt og svalt í veðri.

Suðvestan 5-13 í nótt og á morgun og víða rigning en úrkomuminna norðaustan-og austanlands undir kvöld. hiti 2 til 8 stig, svalast norðaustan til. Á morgun, sunnudag er svo útlit fyrir suðvestan golu eða kalda með rigningu eða skúrum víða um land.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á sunnudag:

Suðvestlæg eða breytileg átt, víða 3-10 m/s og rigning eða skúrir, hiti 2 til 8 stig. Svalara á norðaustanverðu landinu fyrri part dags með dálítilli slyddu eða snjókomu.

Á mánudag:

Norðaustlæg átt 5-13 og dálítil él norðvestantil, annnars hægari breytileg átt og þurrt að kalla sunnan heiða. Hiti 0 til 8 stig, mildast syðst. Vaxandi suðaustanátt um kvöldið og fer að rigna sunnan- og vestanlands.

Á þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag:

Ákveðin suðaustanátt með vætusömu og hlýju veðri, en lengst af úrkomulítið norðaustanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×