Fótbolti

Hand­töku­skipun gefin út á hendur Sturrid­ge vegna van­goldinna fundar­launa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Daniel Sturridge lék á sínum tíma með Liverpool.
Daniel Sturridge lék á sínum tíma með Liverpool. Quality Sport Images/Getty Images

Handtökuskipun hefur verið gefin út í Los Angeles í Bandaríkjunum á hendur Daniel Sturridge, fyrrverandi leikmanns Liverpool, Chelsea og enska landsliðsins í knattspyrnu.

Handtökuskipunin var gefin út í kjölfar þess að Sturridge mætti ekki fyrir rétt. Sturridge átti að mæta fyrir rétt vegna máls sem á rætur sínar að rekja til ársins 2019 þar sem leikmaðurinn fyrrverandi greindi frá því að hundinum Lucci hafi verið rænt af heimili í Los Angeles.

Sturridge bauð fundarlaun þeim sem myndi finna hundinn heilann á húfi. Rapparinn Killa Fame, sem heitir réttu nafni Foster Washington, birti myndir af hundinum á samfélagsmiðlum og hjálpaði Sturridge þar með að finna hundinn.

Leikmaðurinn fyrrverandi greiddi rapparanum hins vegar aldrei fundarlaunin og árið 2021 var Sturridge dæmdur til að greiða Killa Fame 30.000 dollara fyrir að finna hundinn, en það samsvarar um 4,2 milljónum króna.

Sturridge sagði hins vegar frá því á samfélagsmiðlum sínum á sínum tíma að hann hafi greitt ungum dreng fundarlaun fyrir að finna hundinn og það hafi alls ekki verið Killa Fame sem varð til þess að hundurinn fannst. Sturridge hefur því aldrei greitt rapparanum.

Sturridge átti að mæta í dómsal í síðasta mánuði, en hann lét aldrei sjá sig. Málið verður tekið upp á ný þann 30. nóvember næstkomandi og hefur dómari málsins gefið út handtökuskipun á hendur Sturridge og þaðan verður hann færður til réttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×