Fótbolti

„Var ekki viss um hvort ég héldi áfram í fótbolta“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gylfi er farinn að velta framtíðinni fyrir sér.
Gylfi er farinn að velta framtíðinni fyrir sér. vísir/vilhelm

Gylfi Þór Sigurðsson mun að öllum líkindum spila sinn fyrsta landsleik í þrjú ár á morgun. Hann er eðlilega spenntur fyrir því að spila aftur fyrir landsliðið.

„Ekkert smá gaman. Geggjað. Það er gaman að vera í þessari rútínu með strákunum á hótelinu. Taka fundi og æfa. Bara vera í kringum strákana. Stemning í kringum hópinn og spennandi tímar fram undan hjá liðinu,“ sagði Gylfi Þór í samtali við Guðmund Benediktsson.

Síðustu ár hafa verið erfið fyrir Gylfa en sá hann fram á að geta spilað aftur fyrir landsliðið?

„Já og nei. Nei af því ég var ekki viss um hvort ég myndi halda áfram í fótbolta. Þar af leiðandi bjóst ég ekki við að spila fyrir Ísland aftur. Síðan já eftir að ég ákvað að halda áfram í fótbolta og gefa þessu annan séns þá bjóst ég alveg við því.“

Það er svolítið langt síðan Gylfi skoraði sitt 25. landsliðsmark og markametið er 26 mörk. Hann setur eðlilega enn stefnuna á þetta stóra met.

„Að sjálfsögðu stefni ég á það og það hefur verið markmiðið í mörg ár. Kolli og Eiður eiga metið þannig að það er extra þýðingarmikið fyrir mig. Sérstaklega út af Eiði sem var mín fyrirmynd er ég var yngri. Það mun gera það sætara fyrir mig ef ég næ því.“

Klippa: Gylfi ræðir framtíðina



Fleiri fréttir

Sjá meira


×