Innlent

Funduðu um „verk­lag og á­herslur“ í Ráð­herra­bú­staðnum

Atli Ísleifsson skrifar
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, á leið út úr Ráðherrabústaðnum í morgun.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, á leið út úr Ráðherrabústaðnum í morgun. Vísir/Vilhelm

Fulltrúar stjórnarflokkanna þriggja funduðu í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu í morgun. Meðal fundargesta voru formenn flokkanna þriggja og þingflokksformaður Sjálftstæðisflokksins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sátu öll á umræddum fundi, en auk þeirra sást til Hildar Sverrisdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins.

Fundinum lauk nokkru fyrir 10:30, en þingfundur hófst klukkan 10:30 með óundirbúnum fyrirspurnum þar sem Bjarni er til svara. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á leið út úr Ráðherrabústaðnum um klukkan 10:30.Vísir/Vilhelm

Hildur vildi lítið tjá sig um fundinn í samtali við Vísi. Hún sagði þó að til umræðu hafi verið „verklag og áherslur“ í ríkisstjórnarsamstarfinu á yfirstandandi þingvetri.

Bjarni Benediktsson tilkynnti um afsögn sína sem fjármála- og efnahagsráðherra á blaðamannafundi á þriðjudagsmorgun vegna álits umboðsmanns Alþingis sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að Bjarna hefði brostið hæfi við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Tilkynnti Bjarni að hann hygðist segja af sér; hann væri ósammála forsendum en virti álit umboðsmanns.

Reiknað er með að boðað verði til ríkisráðsfundar um helgina og hefur verið nefnt að svo kunni að fara að Bjarni myndi mögulega taka við öðru ráðherraembætti.

Ráðherrabílar fyrir utan Ráðherrabústaðinn í morgun. Vísir/Vilhelm


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×