Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - Hamar 100-64 | Valur valtaði yfir nýliðana

Andri Már Eggertsson skrifar
Kristófer Acox treður í leik kvöldsins
Kristófer Acox treður í leik kvöldsins Vísir/Vilhelm

Valur kjöldró Hamar á heimavelli í 2. umferð Subway-deildar karla. Jafnræði var með liðunum eftir fyrsta fjórðung en heimamenn settu upp flugeldasýningu í öðrum leikhluta og litu aldrei um öxl og unnu að lokum 36 stiga sigur 100-64. 

Leikurinn byrjaði á því að Danero Thomas setti þrist yfir Kristófer Acox. Liðin skiptust síðan á körfum fyrstu mínúturnar og Hjálmar Stefánsson lét til sín taka og gerði fyrstu fimm stig Vals. Danero setti niður þrist og kom gestunum fjórum stigum yfir 10-14 og þá neyddist Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, til þess að taka leikhlé.

Frank Booker og Ragnar Nathanaelsson í leik kvöldsinsVísir/Vilhelm

Bæði lið tóku mikið af þriggja stiga skotum í fyrsta leikhluta. Gestirnir tóku ellefu þriggja stiga skot og hittu sex sinnum á meðan Valur tók átta þriggja stiga skot og hitti fjórum sinnum. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 27-24.

Valsmenn héldu áfram að taka þrista og byrjuðu annan leikhluta á að setja niður tvo þrista í röð. Fyrsta karfa Hamars kom síðan eftir tæplega tvær mínútur. Þrátt fyrir að Hamar hafi komist á blað gaf Valur ekkert eftir og gerði aftur tvær þriggja stiga körfur í röð.

Halldór Karl Þórsson, þjálfari Hamars, reyndi að stöðva blæðinguna með því að taka leikhlé í stöðunni 39-26 en ekkert fékk Val stöðvað. Halldór Karl neyddist til þess að taka annað leikhlé tveimur mínútum síðar þar sem allt var að fara ofan í hjá heimamönnum.

Valur var tuttugu og fimm stigum yfir í hálfleik 56-31. Heimamenn höfðu sett niður ellefu þrista úr 55 prósent skotnýtingu.

Valsmenn fagna á hliðarlínunniVísir/Vilhelm

Valsarar hættu að hitta eins mikið fyrir utan þriggja stiga línuna líkt og þeir gerðu í fyrri hálfleik. Það var skemmtilegt að fylgjast með baráttunni á milli Kristófers Acox og Ragnars Nathanaelssonar sem létu báðir finna fyrir sér. Heimamenn voru 35 stigum yfir fyrir síðasta fjórðung.

Það var pínlegt að fylgjast með uppgjöf Hamars í fjórða leikhluta. Gestirnir töpuðu boltanum oft ansi klaufalega og voru ansi latir við að hlaupa til baka. 

Leikurinn endaði með 36 stiga sigri Vals 100-64.

Daði Lár Jónsson á fleygiferð Vísir/Vilhelm

Af hverju vann Valur?

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en heimamenn settu í annan gír í öðrum leikhluta. Valur kæfði nýliðana með þriggja stiga skotum. Valsmenn unnu annan leikhluta 29-7 og voru 25 stigum yfir í hálfleik og Hamar átti aldrei möguleika á að koma til baka.

Hverjir stóðu upp úr?

Í lið Vals vantaði Kára Jónsson og Frank Booker fékk aukna ábyrgð. Frank var duglegur að setja niður þriggja stiga skot í fyrri hálfleik og gerði 13 stig á tæplega ellefu mínútum í fyrri hálfleik.

Kristinn Pálsson spilaði vel í kvöld og var stigahæstur í liði Vals með 16 stig. Alls skoruðu sjö leikmenn Vals níu stig eða meira. 

Hvað gekk illa?

Eftir laglegan fyrsta leikhluta var allur vindur úr Hamri. Gestirnir létu hvern þristinn á fætur öðrum soga úr sér sjálfstraustið. Hamar var 25 stigum undir í hálfleik og í stað þess að reyna að brúa bilið voru þeir 35 stigum undir eftir þriðja leikhluta.

Hvað gerist næst?

Keflavík og Valur mætast næsta fimmtudag klukkan 19:15. Á sama tíma mætast Hamar og Stjarnan.

Halldór Karl: Léleg stemmning í liðinu 

Halldór Karl Þórsson, þjálfari Hamars, á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Vilhelm

Halldór Karl Þórsson, þjálfari Hamars, var svekktur eftir leik.

„Það var léleg stemmning í okkur þegar að við fengum á okkur mótlæti. Við byrjuðum betur og svo áttum við engin svör við vörn Vals og urðum litlir í okkur,“ sagði Halldór Karl eftir leik.

Þrátt fyrir að stemmningin hafi verið lítil í Hamri í leik kvöldsins þá hafði Halldór ekki áhyggjur af því fyrir framhaldið.

„Það kemur leikur eftir þennan leik en ef það koma 3-4 svona leikir í röð þá þurfum við að hafa áhyggjur. Við erum ekki vanir að spila á móti liði eins og Val þar sem við vorum í fyrstu deildinni.“

Halldór var svekktur með hvernig Hamar byrjaði annan leikhluta þar sem Valur gerði 13 stig á þremur mínútum á meðan Hamar gerði aðeins tvö stig.

„Við vorum ekki að ná að elta Frank Booker og síðan hættu þeir ekki að hitta. Þeir voru með 90 prósent nýtingu í teignum sem er ömurlegt fyrir okkur þar sem við erum með fína hæð í liðinu,“ sagði Halldór Karl Þórsson að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira