Á vef Veðurstofunnar segir að það sé fremur hæg breytileg átt á landinu nú í morgunsárið. Bjart sé víða og vægt frost.
Í dag verður suðvestanátt, víða þrír til tíu metrar á sekúndu, en tíu til fimmtán um norðanvert landið. Þykknar upp vestanlands seinnipartinn og sums staðar dálítil væta þar um kvöldið en áfram bjart austantil. Hiti þrjú til sjö stig yfir daginn.
Aðfaranótt þriðjudags er búist við hvassri norðanátt norðvestantil með kólnandi veðri, slyddu eða snjókomu.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Suðvestan 5-13 m/s, hvassast á norðanverðu landinu. Víða dálítil væta, einkum norðvestantil, en þurrt suðaustan- og austanlands. Hiti 4 til 9 stig.
Á mánudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt 5-13 og rigning, hvassast með suðurströndinni. Hiti 4 til 9 stig. Snýst í norðaustan 13-20 með slyddu á norðvestanverðu landinu um kvöldið með kólnandi veðri.
Á þriðjudag:
Gengur í norðan 13-20 með rigningu eða slyddu, en snjókomu til fjalla. Úrkomuminna sunnanlands. Hiti 0 til 7 stig, mildast við suðurströndina.
Á miðvikudag:
Minnkandi norðanátt og él á Norður- og Austurlandi, en bjart sunnan heiða. Snýst í sunnanátt norðvestantil með rigningu en snjókomu seinnipartinn. Hiti frá frostmarki norðantil upp í 7 stig syðst.
Á fimmtudag:
Suðlæg eða breytileg átt og rigning á sunnanverðu landinu, en slydda eða snjókoma norðantil. Hiti 2 til 6 stig en nálægt frostmarki fyrir norðan. Vaxandi norðanátt og bætir í snjókomu á Vestfjörðum um kvöldið.
Á föstudag:
Útlit fyrir norðan hvassviðri eða storm með snjókomu á norðvestanverðu landinu, hiti um eða rétt undir frostmarki. Annars hægari, úrkomuminna og hiti 0 til 4 stig.