Það voru heimamenn í Tottenham sem höfðu betur í leiknum, 2-1, eftir sjálfsmark í uppbótartíma, en ekki er hægt að segja að sigurinn hafi verið óumdeildur.
Curtis Jones fékk að líta beint rautt spjald í liði Liverpool eftir aðeins um 25 mínútna leik, en þrátt fyrir að vera manni færri virtust gestirnir frá Bítlaborginni vera að taka forystunna stuttu síðar þegar Luis Diaz kom boltanum í netið eftir stungusendingu frá Mohamed Salah.
Hins vegar var markið dæmt af vegna rangstöðu við litla hrifningu gestanna frá Liverpool. Atvikið var svo skoðað í VAR-herberginu og þar virtist það vera nokkuð augljóst að Diaz var vissulega ekki rangstæður þegar sendingin frá Salah kom. Þrátt fyrir það var rangstöðudómurinn látinn standa og eftir að hafa misst annan mann af velli með rautt spjald mátti Liverpool þola 2-1 tap eftir sjálfsmark frá Joel Matip í uppbótartíma síðari hálfleiks.
PGMOL can confirm that we have carried out a review into the circumstances which led to the Luis Diaz goal being incorrectly disallowed for offside in the Premier League match between Tottenham Hotspur FC and Liverpool FC.
— PGMOL (@FA_PGMOL) October 3, 2023
Full statement and the audio between the on-field team… pic.twitter.com/j1YKK1gAzH
Ensku dómarasamtökin PGMOL viðurkenndu mistök strax eftir leik og þeir Simon Hooper, dómari leiksins, og Darren England, VAR-dómari, hafa verið settir í kælingu eftir mistökin.
Nú hafa samtökin birt hljóðupptöku af samskiptum dómarateymisins á meðan leik stóð. Þar má heyra að um misskilning milli manna var að ræða þar sem Darren England í VAR-herberginu hélt að dómarateymið á vellinum hefði dæmt mark.
Dómararnir á vellinum dæmdu hins vegar rangstöðu og leyfðu leikmönnum Tottenham því að taka aukaspyrnuna þegar þeir fengu skilaboð um það að búið væri að skoða atvikið og að dómurinn á vellinum myndi standa. Samskipti dómaranna má hlusta á með því að smella hér.