Fótbolti

Danir völtuðu yfir Walesverja

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fyrirliðinn Pernille Harder skoraði þrennu fyrir danska liðið.
Fyrirliðinn Pernille Harder skoraði þrennu fyrir danska liðið. Huw Fairclough/Getty Images

Danir unnu afar öruggan 5-1 útisigur er liðið heimsótti Walesverja í Þjóðadeild kvenna í knattspyrnu í riðli okkar Íslendinga í kvöld.

Pernille Harder kom Dönum yfir með marki úr vítaspyrnu áður en hún tvöfaldaði forystu liðsins aðeins fimm mínútum síðar og staðan var því 2-0 í hálfleik, Dönum í vil.

Jessica Fishlock minnkaði muninn fyrir velska liðið snemma í síðari hálfleik, en mörk frá Frederike Thogersen og varamanninum Sanne Troelsgaard á 60. og 87. mínútu sáu til þess að Danir komust í 4-1. 

Pernille Harder var svo aftur á ferðinni í uppbótartíma venjulegs leiktíma þegar hún gulltryggði 5-1 sigur danska liðsins og innsiglaði þrennu sína um leið.

Danir tróna því á toppi þriðja riðils A-deildar með sex stig eftir tvo leiki, en Walesverjar reka lestina án stiga. Ísland og Þýskaland eru með þrjú stig hvort eftir 4-0 sigur Þjóðverja gegn íslenska liðinu fyrr í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×