Frægt er þegar Henry Kissinger utanríkisráðherra Nixons spurði Zhou Enlai kollega sinn í Kína hvaða áhrif franska byltingin hefði haft. Svar Zhou Enlai var að það væri of snemmt að segja til um það. Þetta hefur verið tekið sem dæmi um að Kínverjar hugsi til langs tíma. Reyndar hefur síðar komið ljós að líklega skildi Zhou Enlai spurninguna þannig að Kissinger væri að spyrja um stúdentauppreisnina 1968 en ekki stjórnarbyltinguna 1789. En sagan er góð.
Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, sem oft er kallaður „bankaskattur“, var lækkaður snemma á árinu 2020 til auðvelda bönkum og viðskiptamönnum þeirra að takast á við þær rekstrartruflanir sem búist var að Covid heimsfaraldurinn myndi valda hér á landi. Lækkun skattsins hafði verið ákveðin áður en faraldurinn skall á. Áformað hafði verið að lækka skattinn í nokkrum árlegum áföngum úr 0,376 prósent af heildarskuldum niður í 0,145 prósent en vegna Covid var ákveðið að þetta kæmi fram í einum áfanga á árinu 2020.
Þessi stefna hafði verið mörkuð í framhaldi af Hvítbók um framtíð fjármálakerfisins, þar sem meðal annars var fjallað um sérstaka skatta á fjármálafyrirtæki og bent á að álagning þriggja sérstakra skatta á íslensk fjármálafyrirtæki hamlaði samkeppnihæfni þeirra á innlendum markaði og í samkeppni við erlenda keppinauta. Sérskattarnir þrír eru enn til staðar þó einn þeirra hafi verið lækkaður. Skattarnir leggjast ofan á skuldir, hagnað og launagreiðslur fjármálafyrirtækja og eiga að skila ríkissjóði um 16 milljörðum í skatttekjur á næsta ári sem er hlutfallslega mun hærri skattlagning en í nágrannalöndunum.
Lækkun skatthlutfallsins veldur um 9 milljarða króna lækkun „bankaskattsins“ hjá bönkunum fjórum á ári. Hjá stórum bönkunum þremur sem eru álíka að stærð, þó Landsbankinn sé stærstur, eru áhrifin væntanlega um tæpir 3 milljarðar króna ári.
Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, sem oft er kallaður „bankaskattur“, var lækkaður snemma á árinu 2020 til auðvelda bönkum og viðskiptamönnum þeirra að takast á við þær rekstrartruflanir sem búist var að Covid heimsfaraldurinn myndi valda hér á landi. Lækkun skattsins hafði verið ákveðin áður en faraldurinn skall á.
Frá því „bankaskatturinn“ var lækkaður hefur verið vakandi umræða um það hvort lækkun skattsins skili sér til viðskiptamanna bankanna.
Afkoma banka hefur verið sveiflukennd undafarin ár eins og fram kemur í nýlegri skýrslu nefndar á vegum viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi banka. Best var hún árið 2015 þegar hagnaðurinn nam tæpum 107 milljörðum þegar áhrif af virðisuppfærslum eigna skiptu miklu. Lökust var hún árin 2019 og 2020 þegar hún var annars vegar 30 milljarðar og hins vegar 32 milljarðar. Afkoma þessara ára var langt undir þeim arðsemiskröfum sem Bankasýsla, sem fer með eignarhlut ríkis í bönkum, hafði sett og Fjármálaeftirlitið hafði einnig áhyggjur. Útlánatöp höfðu áhrif á afkomu ársins 2019 og niðurfærslur útlána vegna Covid höfðu áhrif á afkomu ársins 2020.
Árið 2021 batnaði afkoma bankanna umtalsvert og hagnaður nam tæpum 92 milljörðum og var það lækkandi rekstrarkostnaður og bakfærsla á Covid niðurfærslum sem stuðluðu að bættri afkomu. Hagnaður bankanna var rúmir 70 milljarðar eftir skatta árinu 2022 og lækkaði nokkuð frá fyrra ári. Á árunum 2020 og 2021 höfðu lágir vextir Seðlabanka áhrif til þess að lækka vaxtamun banka, þar sem innlánsvextir voru ekki lækkaðir niður fyrir núllið. Á árunum 2020 og 2021 var vaxtamunur 2,5 prósent og 2,35 prósent en hækkaði aftur árið 2022 í 2,7 prósent eftir að vextir hækkuðu á ný, svipað og hann var árið 2018.
Allt þetta tímabil frá 2018 hefur rekstrarkostnaður sem hlutfall af heildareignum farið lækkandi, úr 2,4 prósent niður í 1,6 prósent, og gætir þar áhrifa aukinnar sjálfsafgreiðslu, notkunar stafrænnar tækni og fækkun starfsfólks og afgreiðslustaða.
Erfitt er með tilliti til þess stutta tíma sem liðinn er frá því að „bankaskatturinn“ var lækkaður að leggja mat á hvaða áhrif lækkun hans mun hafa á vaxtamun og arðsemi banka, eða með orðum Zhou Enlai, þá er of snemmt að segja.
Eins og þessi stutta umfjöllun um afkomu sýnir eru það margir þættir sem hafa áhrif á afkomu banka og erfitt að greina í sundur áhrif einstakra þátta. Hún sýnir jafnframt að margskonar óvissa hefur áhrif á afkomu banka og erfitt að ná með neinu öryggi tiltekinni arðsemi frá ári til árs, þó til lengri tíma geti náðst sú arðsemi sem stefnt er að.
Arðsemiskrafa eigenda banka hefur undanfarin ár verið á bilinu 12 til 15 prósent og er væntanlega hækkandi vegna hærra vaxtastigs og aukinnar verðbólgu. Eigið fé bankanna fjögurra var í árslok í fyrra um 770 milljarðar króna og arðsemi bankanna fjögurra rúm 10 prósent á árinu 2022.
Erfitt er að greina áhrif skattalækkunarinnar í þessu sveiflukennda umhverfi. Samkvæmt hagfræðinni skiptist byrði af sköttum sem lagðir eru á fyrirtæki milli þeirra og viðskiptamanna og ræður teygni framboðs og eftirspurnar hvernig byrðin skiptist en venjulega bera báðir aðilar einhvern hluta skattsins. Erfitt er með tilliti til þess stutta tíma sem liðinn er frá því að „bankaskatturinn“ var lækkaður að leggja mat á hvaða áhrif lækkun hans mun hafa á vaxtamun og arðsemi banka, eða með orðum Zhou Enlai, þá er of snemmt að segja.
Höfundur er hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja.