Valsmenn eru meistarar meistaranna eftir átta stiga sigur gegn Tindastóli á Sauðárkróki í kvöld. Kristófer Acox og Kristinn Pálsson áttu báðir frábæran leik fyrir Valsmenn.
Í kvöld á Sauðárkóki fór fram Meistarakeppni karla í körfubolta og tókust á liðin sem mættust í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn á seinasta tímabili, Tindastóll er ríkjandi Íslandsmeistarar og Valur bikarmeistari.
Valsmenn hófu leikinn af meiri krafti og tóku forystu í byrjun, Kristinn Pálsson nýr leikmaður þeirra var í stuði og sallaði körfunum á Tindastól en Pétur Rúnar fór fyrir sínum strákum í Tindastól. Tindastóll komst yfir um miðjan fjórðunginn og héldu forystunni þangað til Frank Aaron Booker keyrði að körfu Tindastóls og skoraði en leikar stóðu 18-18 eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta byrjuðu Valsmenn betur. Nýr leikmaður þeirra Antonio Monteiro skoraði í fyrstu sókn, eftir það komu körfur frá Kristófer Acox og Frank Aron Booker og Valsmenn skyndilega komnir í 6 stiga forystu. Þá forystu létu þeir ekki af hendi í leikhlutanum, voru að skrefi á undan Tindastól allan leikhlutann.
Kristinn Pálsson hélt áfram að setja körfur á lið Tindastóls en hann skoraði 13 stig í fyrri hálfleik. Tindastólsmenn virkuðu flatir og vantaði allan neista í vörnina og þessi brjálaða barátta sem einkenndi liðið í fyrra var ekki til staðar.
Leikhlutinn endaði á því að Kristófer Acox varði skot á varnarhelmingi sínum, Valsmenn fóru í sókn og hlupu kerfi fyrir Kristófer sem endaði á að troða boltanum með miklum tilþrifum. Valur leiddi því í hálfleik 42-32 og mikið verk fyrir höndum hjá Tindastól.
Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði, Valur byrjaði betur en Tindastóll og Stólarnir voru í vandræðum að finna lausnir á því sem Valur var að gera.
Valur kom muninum upp í fimmtán stig með þristi frá Hjálmari Stefánssyni og Tindastóll tók leikhlé. Tindastóll kom út úr leikhléinu og settu þrjú stig á töfluna en aftur svaraði Valur og bætti í muninn þegar Callum Lawson setti fimm stig á töfluna á lokamínútu fjórðungsins og kom muninum í 11 stig fyrir lokafjórðunginn.
Valsmenn enn á ný byrjuðu betur í seinasta fjórðungnum. Kristófer og Kristinn Pálsson léku lausum hala og skoruðu fyrstu tvær körfurnar. Pavel neyddist til að taka leikhlé og þá var eins og Tindastóll vaknaði til lífsins og þeir skoruðu sjö næstu stig og munurinn allt í einu orðinn átta stig.
Valur tók leikhlé og stoppaði blæðinguna. Eftir þetta skiptust liðin á að skora og var munurinn aldrei minni en þessi 8 stig sem Tindastóll náði þessu í. Daði Lár Jónsson stjórnaði liði Valsmanna eins og herforingi. Með þá Kristinn Pálsson og Kristófer Acox í þvílíkum gír og framlag frá Antonio Monteiro sigldu þeir öruggum 80-72 sigri í höfn. Valur er því meistari meistaranna eftir verskuldaðan sigur á Sauðárkróki.
Af hverju vann Valur?
Þetta var góð frammistaða hjá þeim í dag og þeir áttu skilið sigurinn. Valsmenn ýttu Tindastól út úr því sem þeir voru að gera og voru betri á öllum sviðum.
Hverjir stóðu upp úr?
Kristófer Acox, Kristinn Pálsson og Daði Lár Jónsson voru frábærir í liði Vals í dag. Daði Lár stýrði leik liðsins í fjarveru Kára Jónssonar og hann bjó til fullt af færum fyrir liðsfélaga sína. Ef Val vantaði körfu í dag voru það Kristinn og Kristófer sem tóku af skarið og sáu um þetta fyrir Val. Kristinn endaði með 23 stig og Kristófer endaði með 18 stig auk þess að taka 17 fráköst.
Hvað gekk illa?
Tindastól gekk illa að koma boltanum ofan í körfu Vals og átti erfitt með að stoppa leik Valsliðsins. Mikið af galopnum skotum voru stutt og lélegar ákvarðanir á varnarhelming leiddu til þess að Valur fékk auðveldar körfur. Það var enginn sem steig upp og leiddi liðið í dag en Þórir var að reyna en það vantaði meira í dag.
Hvað gerist næst?
Tindastóll er að fara í Evrópuævintýri á meðan Valur bíður eftir fyrsta leik í deild sem er 6. október.
Pavel: Þetta lið þarf að slípa sig saman
„Það sem við tökum út úr þessu leik er að við sáum að við erum ekki undanskildir því að að ganga í gegnum ákveðna hluti. Þetta lið þarf að slípa sig saman og vinna saman. Allir þurfa að taka ábyrgð á því að taka ákveðinn skref áfram og vera meðvitaðir um að þetta kemur ekki af sjálfu sér. Ég lofa þér því, það er lærdómurinn sem við tökum út úr þessu.“
Þið komuð flatir inn í leikinn og voruð ekki að ná upp vörninni sem þið voruð að vinna með í fyrra, er eitthvað sem þú getur bent á sem var að valda því ?
„Ég held við séum ekki á þeim líkamlega stað sem menn eru undir lok deildarinnar og í úrslitakeppninni. Menn eru búnir að ganga í gegnum heilt tímabil þá og geta þá hlaupið og djöflast aðeins meira en í september. Að því sögðu er kannski lærdómur sem við þurfum að taka með okkur, að sama skapi er þetta ekki bara að djöflast og reyna heldur er þetta bara traust sem skapast á milli manna.“
„Ég endurtek, við erum ekki undanskildir því að ganga í gegnum það og rauði þráðurinn í þessu að menn að átti sig á því að við strákarnir og við sem eru í þessu, að vegferðin verður löng og erfið það er vinna sem fylgir þessu og þetta er dæmi um það.“
Kristófer Acox: Aðrir stigu upp í dag og gerðu vel
Hvað skóp sigurinn í dag?
„Bara liðsheild held ég. Við komum tilbúnir frá fyrstu mínútu og við vorum með yfirhöndina allan leikinn. Við vissum að þeir myndu koma til baka. Svo er ennþá september og kannski ekki besti leikurinn hjá báðum liðum en tökum allt gott úr þessu.“
„Við erum að reyna að spila svipaðan bolta og gerðum seinni hlutann á mótinu í fyrra. Við erum kominn með nýja pósta inn í liðið og við eigum eftir að fylla liðið. Kári meiddur og aðrir stigu upp í dag og gerðu vel. Margt jákvætt en líka margt sem þarf að laga.“