Rúv greindi fyrst frá komu rostungsins til Raufarhafnar og ræddi við Ingibjörgu Hönna Sigurðardóttur, íbúa í bænum.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af geðstirða rostungnum sem tekið var af Birni Þór Baldurssyni.
Í samtali við fréttastofu segir Ingibjörg að rostungsins hafi fyrst orðið vart klukkan sex í morgun. Þá hafi hann verið frekar illa á sig kominn.
„Hann var ansi slappur, með sár á kviðnum og rauður i augunum,“ sagði Ingibjörg.
Þá hafi hann virst ansi geðstirður og hvæst á fólk sem nálgaðist hann.
Leist ekkert á hann
Þetta er langt frá því að vera í fyrsta sinn sem rostungur ratar í fréttirnar hérlendis en undanfarið hafa þeir í síauknum mæli gert sig heimakomna í fjörum landsins. Matvælastofnun og lögregla hafa varað fólk við því að koma nálægt rostungum þar sem geta farið hratt yfir og slasað fólk. Einnig geta þeir borið með sér framandi smitsjúkdóma.
Ingibjörg segist ekki hafa haft miklar áhyggjur af því, þessi rostungur hafi hreyft sig mjög lítið.
„Við vorum alveg ofan í honum, en mér leist svo sem ekkert á hann, fékk alveg hroll.“
Hún segir fjölda fólks hafa safnast saman til að berja dýrið augum. Þetta sé í fyrsta sinn sem rostungs verði vart í bænum og slíkt sé fljótt að fréttast í svo litlu bæjarfélagi. Rostungurinn dvaldi hinsvegar ekki lengi á Raufarhöfn en um klukkan 13 ákvað hann að heimsókninni væri lokið synti á brott á vit ævintýranna.