Körfubolti

Ánægður með sigurkörfuna: „Hjalti má hafa sína skoðun“

Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke skrifar
Bjarni Magnússon er þjálfari Hauka.
Bjarni Magnússon er þjálfari Hauka. Vísir/Diego

Haukar unnu Val í hörkuskemmtilegum leik þar sem titilinn meistari meistaranna var undir. Bikarmeistararnir í Haukum voru lengstum með yfirhöndina en voru einu stigi undir þegar tvær sekúndur voru eftir. Keira Robinson reyndist hetja gestanna í Origo höllinni með því að skora flautukörfu og tryggja Haukum sigurinn.

„Það er gaman að vinna þennan leik, spennandi leikur,“ sagði Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, eftir leikinn.

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Vals, var til viðtals á undan Bjarna og var hann á því að sigurkarfan hefði ekki átt að standa, tíminn hefði átt að vera runninn út. Bjarni var spurður hvort hann hefði haldið að leikurinn hefði verið tapaður þegar Valur komst yfir og tvær sekúndur voru eftir. 

„Nei nei, það voru tvær sekúndur eftir. Við gerðum okkur dálítið erfitt fyrir á síðustu mínútunum. Mér fannst við vera komnar með leikinn, en svo komu lélegar villur og misskilningur hér og þar. Við áttum tvær sekúndur eftir og fyrsti kostur heppnaðist. Ánægjulegt að sjá boltann fara ofan í.“ 

Bjarni fékk að heyra álit Hjalta á körfunni. 

„Dómararnir skoðuðu þetta, ég ætla ekki að segja hvort þetta var ólöglegt eða ekki. Á tveimur sekúndum geturðu dripplað boltanum og sótt á körfuna. Hún greip og dripplaði. Þeir kíktu á þetta þannig þetta er pottþétt karfa. Hjalti má hafa sína skoðun, allt í góðu.“ 

Þessi titill var sá fyrsti sem er í boði í vetur. Er stefnan hjá Haukum að sækja hina þrjá? 

„Við ætlum að reyna sækja hinar dollurnar. En manstu hver var meistari meistaranna í fyrra?“ spurði Bjarni og vildi ekki gera of mikið úr því að hafa unnið þennan titil. 

„Það er ánægjulegt að vinna, þetta er hluti af undirbúningstímabilinu, við eigum langt í land á báðum endum en alltaf gott að fá sigur. Að klára svona augnablik hjálpar til og fer í reynslubankann. Nú er bara að hittast á föstudaginn og undirbúa fyrsta leik í deild á þriðjudaginn.“ 

Átti ekki að vera á skýrslu 

Helena Sverrisdóttir var á skýrslu en kom þó ekki við sögu. Hver er staðan á henni? 

„Hún átti ekki að vera á skýrslu, hún er ekki að fara spila strax. Hún er búin að spila aðeins fimm á fimm með okkur á hálfum velli. Hún má ekki hlaupa, þarf að ná ákveðnum styrk upp í fætinum áður. Við erum bjartsýn á að hún geti komið inn seinna á tímabilinu, en við þurfum að vera þolinmóðar. Það er vonandi að við sjáum hana á parketinu þegar líða tekur á tímabilið.“ 

Bjarni var ánægður með nýja finnska leikmanninn, Kaisu Kuisma. Hún er leikmaður sem er með reynslu úr finnsku deildinni og kæmi til með að styrkja liðið. 

Ánægjulegt að sjá gömlu vinina aftur 

Það hefur verið umræða um dómara í íslenska körfuboltaheiminum. Dómarar hafa verið í verkfalli en þrír slíkir voru mættir að dæma leikinn í kvöld. Var gott að sjá þá aftur? 

„Geggjað, ég sagði það einmitt við þá. Mér heyrðist að það ætti að skrifa undir á morgun. Það er frábært, búið að vera leiðindamál. Það var mjög ánægjulegt að sjá þessa gömlu vini okkar mæta á parketið og flauta þetta vel.“ 

Bjarni var hreinskilinn í viðtalinu fyrir leik þegar hann var spurður hvort það hefði alltaf staðið til að hann yrði áfram þjálfari Hauka eftir síðasta tímabil. Hann talaði um þreytu en svo hafi körfuboltafíknin kallað á hann og hann verið klár í að taka slaginn áfram. 

Hvað er það sem er svona skemmtilegt við körfuboltann að það náði að fá þig til að halda áfram? 

„Ég er búinn að vera í kringum körfubolta síðan ég var pjakkur. Ég hef tekið mér hvíld einhvern tímann áður. Félagsskapurinn, að leggja eitthvað upp, sjá eitthvað þróast, mikið af skemmtilegu fólki í kringum þetta... það er bara svo margt. Þetta er búið að vera líf mitt síðan ég var pjakkur, búinn að vera þjálfa meira og minna síðan 2008 og þetta er orðið hluti af heimilislífinu líka; fjölskyldan tekur þátt í þessu, annars væri þetta ekki hægt. Það er mjög gaman að vera kominn á parketið aftur og ég hlakka til að kljást við þetta verkefni í vetur,“ sagði Bjarni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×