Já, hér erum við að tala um Vagn Ingólfsson fyrrverandi sjómann en núna húsvörð í grunnskólanum í Ólafsvík. Listaverkin hans eru út um allt heima hjá honum hvert öðru fallegra. Hann var að ljúka við áskorun, sem hann fékk en það var að skera út 20 punda lax, sem er nú staddur í Bandaríkjunum í sprautun.
En hvaða viði er Vagn mest að vinna með?
„Heyrðu, það er erfitt að ná í góðan við. Ég er að vinna í birki og ég er að vinna í sjórekinn við líka,” segir Vagn.
Og þetta eru mjög flott verk hjá þér.
„Já, ég er bara mjög stoltur af þeim. Ég vil takast á við flókin verkefni, sem eru erfið og er áskorun og það hefur bara gengið finnst mér mjög vel.”
En hvað gerir Vagn við verkin sín?
„Þau eru bara hérna upp á veggjum inn á heimilinu. Ég hef aldrei selt þetta og það er verið að gauka því að mér að halda sýningu en ég er eitthvað svo kærulaus með það að ég þarf að fara að gera eitthvað í því,” segir hann og hlær.
Vagn segist alveg detta í annan heim þegar hann er að vinna verk sín og geti gleymt sér við það klukkutímunum saman.
„Ég bara kúplast út og konan þarf að kalla í mig í kaffi og á klósettið.”
Vagn er að gera upp vinnuskúrinn hjá sér og bæta aðstöðuna sína og hann er alltaf með einhver skemmtileg og spennandi verkefni í vinnslu.