Fótbolti

Fundu marokkóska drenginn í Real Madrid-treyjunni og ætla að taka hann inn í akademíuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viðtal við Abdul Rahim Awhida vakti heimsathygli.
Viðtal við Abdul Rahim Awhida vakti heimsathygli.

Real Madrid hefur fundið dreng sem missti fjölskyldu sína í jarðskjálftanum mannskæða í Marokkó og tekið hann inn í akademíu félagsins.

Hinn fjórtán ára Abdul Rahim Awhida var í treyju Real Madrid þegar hann sagði frá hræðilegri reynslu sinni í sjónvarpsviðtali við Al Arabiya. Það vakti mikla athygli enda afar áhrifaríkt. Í viðtalinu sagðist Awhida vilja uppfylla draum föður síns, klára námið sitt og verða annað hvort læknir eða kennari.

Foreldrar Awhidas, tveir bræður og afi hans voru meðal þeirra tæplega þrjú þúsund sem létust í jarðskjálftanum í Marokkó á föstudaginn. Hann var 6,8 að stærð. 

Eftir að hafa séð viðtalið höfðu forráðamenn Real Madrid samband við Al Arabiya og komust þannig í samband við Awhida. Real Madrid ætlar að taka Awhida inn í unglingaakademíu félagsins til að spila fótbolta og klára námið.

„Ég þakka guði. Þetta gerði mig svo glaðan,“ sagði Awhida í sjónvarpsviðtali eftir að Real Madrid hafði samband við hann.

Awhida flyst nú búferlum til Madrídar þar sem hann mun hefja nýtt líf með hjálp Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×