Fótbolti

Verkfallinu aflétt og spænska deildin getur hafist

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leikmenn spænsku úrvalsdeildar kvenna hafa verið í verkfalli undanfarnar vikur.
Leikmenn spænsku úrvalsdeildar kvenna hafa verið í verkfalli undanfarnar vikur. Ruben Lucia/NurPhoto via Getty Images

Leikmenn í efstu deild kvenna á Spáni hafa bundið enda á verkfall sitt eftir að hafa náð samkomulagi um hækkun lágmarkslauna leikmanna í deildinni.

Fyrsta umferð spænsku úrvalsdeildarinnar, Liga F, gat ekki farið fram um seinustu helgi vegna verkfalla leikmanna. Önnur umferðin á að hefjast í dag og nú stefnir allt í að hún muni gera það.

Liga F og leikmannasamtökin á Spáni komust að samkomulagi að hækka lágmarkslaun leikmanna úr 16.000 evrum á ári í 21.000 evrur á ári. Árslaun leikmanna verða því að lágmarki um þrár milljónir króna á ári og nemur hækkunin rúmlega 700.000 krónum á ársgrundvelli.

Þá munu lágmarkslaunin hækka enn frekar fyrir næsta tímabil, úr 21.000 evrum upp í 23.500 evrur. Upphaflega fóru leikmenn fram á að lágmarkslaun yrðu hækkuð í 25.000 evrur og svo í 30.000 evrur fyrir næsta tímabil.

Samningar um hækkun lágmarkslauna hófust fyrir um ári síðan þegar Liga F varð atvinnumannadeild. Deildin vildi þó ekki hækka lágmarkslaun leikmanna og sagði að hækkunin myndi valda gríðarlegum fjárhagsvandræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×