Innlent

„Vorum fyrir tilviljun að horfa í rétta átt á réttu augnabliki“

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Þetta er í raun og veru mjög stórbrotið stjörnuhrap sem við sjáum þarna,“ segir Sævar Helgi Bragason um vígahnöttinn.
„Þetta er í raun og veru mjög stórbrotið stjörnuhrap sem við sjáum þarna,“ segir Sævar Helgi Bragason um vígahnöttinn. Babak Tafreshi

Svokallaður vígahnöttur sást í gærkvöldi yfir Íslandi. Myndband af fyrirbrigðinu sýnir þegar það sprakk með tilheyrandi ljósadýrð.

Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, varð vitni að sprengingunni í gærkvöldi. Hann var í norðurljósaskoðunarferð þegar vígahnötturinn birtist skyndilega öllum að óvörum, klukkan 22:35.

„Þetta er í raun og veru mjög stórbrotið stjörnuhrap sem við sjáum þarna,“ segir Sævar sem var staddur hjá Heimskautagerðinu við Raufarhöfn.

Hann telur að stærðin á loftsteininum hafi verið sambærileg borðtenniskúlu eða tennisbolta og að það hafi líklega verið á áttatíu til hundrað kílómetra hæð. Þá segir hann að rykslóð eftir vígahnöttinn hafi sést á himninum í hálftíma eftir sprenginguna.

„Við vorum fyrir tilviljun að horfa í rétta átt á réttu augnabliki,“ segir Sævar, en vinur hans, ljósmyndarinn Babak Tafreshi, náði atvikinu á myndband.

Líkt og sjá má á myndbandinu voru mikil norðurljós þegar vígahnötturinn birtist. Sævar segir ekki tengingu á milli fyrirbæranna tveggja, það sé í raun tilviljun að þau sjáist þarna á sama tíma.

Þrátt fyrir það hafi verið mikið um norðurljós þetta sama kvöld, eða svokallaður norðurljósastormur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×