Innlent

For­seta­hjónin á leið í krýningar­af­mæli Karls Gústafs konungs

Atli Ísleifsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson forseti á leið til Svíþjóðar ásamt eiginkonu sinni, Elizu Reid.
Guðni Th. Jóhannesson forseti á leið til Svíþjóðar ásamt eiginkonu sinni, Elizu Reid. Vísir/Vilhelm

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid halda á morgun til Stokkhólms í Svíþjóð þar sem þau munu taka þátt í hátíðahöldum í tilefni hálfrar aldar krýningarafmælis Karls XVI. Gústafs Svíakonungs.

Frá þessu segir í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands. Karl Gústaf varð þjóðhöfðingi Svíþjóðar árið 1973 við andlát afa síns, Gústafs VI. Adolfs konungs, en þjóðhöfðingjar allra Norðurlandanna munu sækja krýningarafmælið.

„Hátíðardagskráin hefst að kvöldi fimmtudagsins 14. september með sýningu í Drottningholm hallarleikhúsinu og kvöldverði í Drottningholm höllinni í kjölfarið. 

Að morgni föstudagsins 15. september sækja forsetahjónin messu í Slottskyrkan ásamt konungsfjölskyldunni og öðrum heiðursgestum og fylgjast að því loknu með hyllingu konungs frá svölum konungshallarinnar. Þá verður norrænum þjóðhöfðingjum boðið til hádegisverðar með sænsku konungshjónunum og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. Dagskrá krýningarafmælisins lýkur svo með hátíðarkvöldverði í konungshöllinni á föstudagskvöld,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×