Balado hélt stillingu sinni og reyndi að halda útsendingunni áfram. Nacho Abad, þáttastjórnandinn, virtist mjög brugðið og spurði Balado hvort maðurinn hefði snert á henni rassinn. Hún svaraði því játandi.
Hún bað manninn um að leyfa henni að vinna í friði en hann hélt áfram að trufla hana. Maðurinn strauk svo um hár Balado áður en hann gekk á brott.
Maðurinn sneri þó aftur skömmu síðar en þá var fljótt klippt á útsendinguna. Abad hafði þá varað Balado við því að maðurinn væri að koma aftur.
Áður en klippt var á útsendinguna sagði maðurinn Balado að hann hefði ekki snert á henni rassinn og krafðist þess að hún segði sannleikann.
Atvikið má sjá í spilaranum hér að neðan.
Samkvæmt frétt El País er maðurinn 25 ára gamall og á hann rætur að rekja til Rúmeníu.
Samstarfsmenn Balado hringdu í lögregluna á meðan útsendingin var í gangi og var hann fljótt handtekinn. Lögreglan birti svo myndband af manninum í handjárnum í dag.
Detenido por agredir sexualmente a una reportera mientras estaba realizando un directo de televisión #Madrid pic.twitter.com/vKkBjNXJve
— Policía Nacional (@policia) September 12, 2023
Samkvæmt El País verður maðurinn mögulega ákærður fyrir kynferðisbrot en atvikið hefur leitt til mikillar reiði á Spáni. Miðillinn segir marga hafa tjáð sig um þessa árás og en þeirra á meðal var Irene Montero, jafnréttisráðherra Spánar.
„Það sem var áður „eðlilegt“ er það ekki lengur,“ sagði hún.