Fótbolti

Talsmaður Pogba segir hann aldrei hafa ætlað sér að brjóta reglur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Paul Pogba gæti átt yfir höfði sér fjögurra ára bann frá knattspyrnuiðkun.
Paul Pogba gæti átt yfir höfði sér fjögurra ára bann frá knattspyrnuiðkun. Elianton/Mondadori Portfolio via Getty Images

Talsmaður knattspyrnumannsins Paul Pogba segir að leikmaðurinn hafi aldrei ætlað sér að brjóta reglur eftir að greint var frá því að Pogba hafi fallið á lyfjaprófi.

Í gær bárust fréttir af því að Pogba, sem er leikmaður Juventus á Ítalíu, hafi fallið á lyfjaprófi og stuttu síðar var hann svo dæmdur í tímabundið bann frá fótbolta af ítalska lyfjaeftirlitinu eftir að mikið magn testósteróns greindist í lyfjaprófi sem hann tók á dögunum.

Þessi þrítugi landsliðsmaður Frakklands féll á lyfjaprófi sem tekið var þann 20. ágúst síðastliðinn eftir 3-0 sigur Juventus gegn Udinese í fyrstu umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar þar sem Pogba var ónotaður varamaður.

Rafaela Pimenta, talsmaður Pogba, segir þó að það hafi aldrei verið ætlun leikmannsins að brjóta reglurnar.

„Við bíðum eftir niðurstöðum úr B-sýninu og þangað til þá getum við ekki tjáð okkur um málið,“ sagði Pimenta í yfirlýsingu sem barst Sky Sports.

„Það er þó alveg ljóst að Pogba ætlaði sér aldrei að brjóta reglurnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×