Fótbolti

Vildu að Sol­skjær tæki við lands­liðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær virðist ekki vera tilbúinn að snúa aftur í stöðu knattspyrnustjóra.
Ole Gunnar Solskjær virðist ekki vera tilbúinn að snúa aftur í stöðu knattspyrnustjóra. Vísir/Getty

Ole Gunnar Solskjær hefur staðfest að hann hafi rætt við norska knattspyrnusambandið um að taka við norska kvennalandsliðinu. Hege Riise hætti þjálfun liðsins á dögunum eftir erfitt HM.

Norska kvennalandsliðið bjó til margar fyrirsagnir á meðan á heimsmeistaramótinu í Ástralíu og Nýja Sjálandi stóð. Þær voru reyndar flestar af neikvæðum toga. Gengið inni á vellinum var undir væntingum og þá bárust líka fregnir af ósætti í landsliðshópnum

Þjálfarinn Hege Riise lét af störfum af dögunum en hún hafði aðeins verið við stjórnvölinn síðan á síðasta ári.

Nú greinir norska TV2 frá því að norska knattspyrnusambandið hafi haft samband við Ole Gunnar Solskjær um möguleikann á að hann taki við liðinu. Solskjær staðfestir að hafa átt samtal við knattspyrnusambandið.

„Hvort ég hafi talað við sambandið um landsliðið? Já, það hef ég gert. Að sjálfsögðu hef ég gert það. Þau spurðu mig,“ sagði Solskjær sem staðfesti jafnframt að hann hafi neitað sambandinu.

„Ég er enn ekki tilbúinn,“ sagði Solskjær sem sömuleiðis neitaði norska úrvalsdeildarliðinu Álasund í vor. Þá reyndi franska félagið Nice sömuleiðis að fá hann til að taka við stjórn liðsins.

TV2 greinir jafnframt frá því að norska knattspyrnusambandið sé búið að greina heimsmeistaramótið í þaula. Samkvæmt heimildum miðilsins hefur komið fram mikil óánægja með Monica Knudsen sem er aðstoðarlandsliðsþjálfari.

Leikmenn segja að Riise hafi látið Knudsen sjá um meirihluta samskipta við leikmennina og að samskiptin hafi gengið illa. Knudsen hafi talað við þær eins og þær væru börn og samskiptin á mörkunum að flokkast sem einelti. Knudsen er enn starfandi aðstoðarþjálfari liðsins.

Það er því ljóst að norska knattspyrnusambandið þarf að vinna að ýmsum málum á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×