Innlent

Himin­lifandi í Háa­leitis­hverfi með eðli­legan þrýsting

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mikið var um vandræði með kaldavatnslagnir í ágúst. Þannig fór lögn í sundur á Hafnarfjarðarvegi við Kringlumýrarbraut þann 22. ágúst síðastliðinn. Þá varð kaldavatnslaust á stóru svæði í Fossvogi.
Mikið var um vandræði með kaldavatnslagnir í ágúst. Þannig fór lögn í sundur á Hafnarfjarðarvegi við Kringlumýrarbraut þann 22. ágúst síðastliðinn. Þá varð kaldavatnslaust á stóru svæði í Fossvogi. Vísir/Vilhelm

Í­búar í Háa­leitis­hverfi í Reykjavík finna aftur fyrir eðli­legum þrýstingi á kalda vatninu sínu, ef marka má um­ræður á í­búa­hópi. Veitur segja að bráða­birgða­tenging hafi verið tekin af plani og varan­leg tenging sett aftur á. Það sé ekki úti­lokað að þrýstingur hafi aukist við það.

Eins og Vísir hefur greint frá hafa í­búar í hverfinu kvartað undan litlum þrýstingi á kalda vatninu heima hjá sér eftir við­gerðir Veitna á kalda­vatns­lögn þann 8. ágúst síðast­liðinn. Einn íbúi sem Vísir ræddi við sagði að einungis kæmi sjóðandi heitt vatn úr sturtunni og þá væri nær ó­mögu­legt að fá volgt vatn úr krana. Í­búinn kvartaði jafn­framt undan mis­vísandi upp­lýsingum frá Veitum, sem hafi gefið nokkrar skýringar á málinu.

Vand­ræðin undan­farnar vikur voru í­trekað rædd á í­búa­hópi Háa­leitis­hverfis á sam­fé­lags­miðlinum Face­book. Lýstu ein­hverjir í­búar því að þeir hefðu gefist upp og skipt um blöndunar­tæki heima hjá sér til að bregðast við vandanum. Í lok ágúst lagði einn íbúa til að efnt yrði til gjörnins þar sem í­búar myndu af­henda Veitum gömul blöndunar­tæki og reikninga vegna skiptanna.

Bráða­birgða­tenging tekin af

Í­búar lýsa því nú í í­búa­hópnum að þeir hafi tekið eftir því í gær að þrýstingurinn á kalda vatninu sé kominn í lag. Þá sé hægt að nálgast volgt vatn að nýju. Níu í­búar lýsa sömu sögu og segist einn þeirra hafa komist í sturtu eftir fjögurra vikna notkun á vaska­fati.

„Miðað við svörin frá Veitum á sínum tíma, þá var allt í lagi áður og ekkert sem þurfti að laga. Og núna virðist búið að laga það. Þetta eru ó­kannaðar slóðir í vatns­miðlunar­ævin­týrum…“ skrifar einn íbúa í kald­hæðni.

Í svörum frá Veitum til Vísis vegna málsins segir að í fyrra­dag hafi verið bráða­birgðar­tenging tekin af sam­kvæmt plani og varan­leg tenging sett aftur. „Við það er ekki úti­lokið að þrýstingur hafi aukist lítil­lega inn à dreifi­kerfið.“

Áður sögðu Veitur í svörum til frétta­stofu að ekki hefðu borist margar til­kynningar frá í­búum hverfisins vegna málsins. Starfs­fólk Veitna hefði farið í þó nokkur hús þann 8. ágúst og mælt þrýsting á kalda vatninu, sem hafi verið í lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×