Sáttin sem Hunter Biden gerði við alríkissaksóknara í sumar snerist um vangoldna skatta og að hann hafi átt skotvopn á sama tíma og hann var í virkri neyslu fíkniefna. Allt fór hins vegar í háa loft þegar málið var á lokametrunum þegar í ljós kom að saksóknarar og verjendur Biden lögðu ekki sama skilning í hvers konar friðhelgi hann fengi frá frekari saksókn í júlí.
David Weiss, saksóknarinn sem dómsmálaráðuneytið skipaði sérstakan rannsakanda í málinu, sagði í greinargerð til dómara sem var lögð fram í gær að hann ætlaði sér að fá ákærudómstól til þess að samþykkja nýja ákæru fyrir 29. september. AP-fréttastofan segir ekki ljóst fyrir hvað standi til að ákæra.
Lögmenn Biden telja að samkomulagið sem hann gerði fyrr á þessu ári bindi hendur saksóknaranna varðandi skotvopnalagabrotið. Biden hafi heiðrað þær skyldur sem voru lagðar á herðar honum. Saksóknararnir segja það samkomulag hins vegar dautt og grafið.
Repúblikanar á Bandaríkjaþingi hafa lengi reynt að nota Hunter Biden og vandræðagang hans til þess að koma höggi á föður hans, Joe Biden. Þeir standa nú fyrir rannsóknum í fulltrúadeild þingsins þar sem þeir saka forsetann um að hafa hagnast á spilltum viðskiptasamningum sonar síns. Jafnvel er rætt um að repúblikanar kæri Biden fyrir embættisbrot vegna þess.
Engar sannanir hafa þó verið lagðar fram fyrir ásökunum repúblikana umfram að Hunter Biden hafi sjálfur reynt að hagnast á frægð og stöðu föður síns. Ekkert hefur komið fram um að Joe Biden hafi þekkt til viðskipta sonar síns, hvað þá að hann hafi verið þátttakandi í þeim.