Erlent

Vísað á dyr fyrir að sitja ekki í sætum útötuðum gubbi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Air Canada hefur boðið farþegana afsökunar.
Air Canada hefur boðið farþegana afsökunar. Mynd/EPA

Flugfélagið Air Canada hefur sent frá sér afsökunarbeiðni eftir að hafa ætlast til þess að farþegar myndu sitja í sætum sem voru útötuð í gubbi. Tveir farþegar, sem neituðu að sitja í umræddum sætum, var vísað úr vélinni.

Fjallað er um málið á vef BBC, en þar er haft eftir Susan Benson, öðrum farþeganum, að flugþjónn hafi hótað að setja þau í flugbann vegna málsins.

Jafnframt segir hún að áhöfn vélarinnar hafi reynt að fela lyktina af ælunni, til að mynda með ilmvatni.

„Svo virðist vera sem einhver í fluginu á undan hafi gubbað. Flugþjónninn baðst afsökunar en útskýrði að vélin væri full,“ segir Susan.

Tilraunir hafi verið gerðar til að þrifa gubbið og fela lyktina, en sætið og sætisólar hafi þrátt fyrir það verið blautar.

Þegar ljóst var að farþegarnir höfðu engan áhuga á að sitja í sætunum hafi þau fengið tveggja kosta völ. Þau gætu keypt nýtt flug á eigin kostnað, eða að þeim yrði fylgt af öryggisgæslu af flugvellinum. Fram kom að ef þau myndu velja seinni kostinn yrðu þau sett á flugbannslista.

Að lokum var þeim vísað á dyr af öryggisvörðum.

Air Canada segist nú skoða hvað fór úrskeiðis í þessu atviki og segjast ætla að reyna að koma í veg fyrir að mál sem þessi komi upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×