Umfjöllun: ÍBV - Selfoss 2-1 | Eyjakonur sendu Selfoss niður um deild

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Guðný Geirsdóttir lagði upp sigurmark ÍBV í kvöld.
Guðný Geirsdóttir lagði upp sigurmark ÍBV í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Selfoss er fallið úr Bestu deild kvenna eftir 1-2 tap gegn ÍBV á Hásteinsvelli. Áslaug Dóra kom Selfyssingum yfir eftir hornspyrnu en Olga Sevcova skoraði svo tvö mörk fyrir Eyjakonur og gerði útaf við allar vonir gestanna.

Leikurinn hófst heldur betur vel fyrir Selfyssinga þegar Áslaug Dóra kom þeim yfir eftir aðeins fjögurra mínútna leik. Markið kom eftir hornspyrnu þar sem Haley Marie átti skot í slá áður en miðvörðurinn kom boltanum yfir línuna.

Gestirnir færðu sig strax aftarlega á völlinn til að verja forystuna og leyfðu ÍBV að halda í boltann. Eyjakonur spiluðu vel á milli sín og sóttu upp völlinn með Olgu Sevcova fremsta í fararbroddi.

Hún jafnaði svo metin á 16. mínútu eftir góða fyrirgjöf Kristínu Sigurlásdóttur. ÍBV hélt áfram að sækja eftir jöfnunarmarkið og voru betri aðilinn í fyrri hálfleik. En Selfyssingum tókst að verjast vel og voru hættulegar á hinum endanum þegar þær komust í boltann.

Selfossliðið kom svo vel út úr búningsherbergjum sínum og tók stjórnina í seinni hálfleik. Þær færðu sig ofar á völlinn og tókst að skapa sér mörg hættuleg marktækifæri.

Síðustu mínútur leiksins var þreyta farin að segja til sín í báðum liðum, sóknir urðu hægari og ekkert leit út fyrir að sigurmarkið kæmi.

Það gerðist svo á 87. mínútu að Guðný Geirsdóttir sparkaði langt frá marki sínu, yfir varnarlínu Selfoss og beint í lappirnar á Olgu Sevcovu sem kláraði færið af miklu öryggi, stöngin, stöngin inn. Þetta var þriðja stoðsending markvarðarins í sumar en enginn annar markvörður hefur lagt upp mark.

Allar vonir Selfoss voru þar með úti, liðinu hefði ekki heldur dugað jafntefli til að halda sér uppi í deild þeirra bestu og mun spila í Lengjudeildinni á næsta tímabili.

Af hverju vann ÍBV?

Það leit allt út fyrir að þessi leikur myndi enda með sanngjörnu jafntefli milli tveggja jafnra liða. En á ótrúlegan hátt fann ÍBV sigurmarkið og gerði útaf við þennan leik.

Hverjar stóðu upp úr?

Olga Sevcova var maður leiksins, ekki spurning um það. Skoraði tvö frábær mörk og tryggði sínu liði sigurinn.

Hvað gekk illa?

Selfoss nýtti færin sín ekki nógu vel í þessum leik. Stóðu sig vel varnarlega í fyrri hálfleik þegar ÍBV var með yfirhöndina. Komu svo vel út í seinni og tóku stjórn á leiknum en tókst ekki að nýta sér þann kafla.

Hvað gerist næst?

Selfoss mætir Tindastól á sunnudaginn kl. 16:00. ÍBV mætir Keflavík á sama tíma og getur með sigri eða jafntefli tryggt sig frá falli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira