Innlent

„Ef þær koma niður fá þær að drekka og borða“

Lovísa Arnardóttir skrifar
Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir ekkert stress á vettvangi og engar sérstakar aðgerðir planaðar vegna mótmæla á hvalveiðiskipum Hvals hf.
Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir ekkert stress á vettvangi og engar sérstakar aðgerðir planaðar vegna mótmæla á hvalveiðiskipum Hvals hf. Vísir/Arnar

Lögreglan segist hafa boðið mótmælendum á hvalveiðiskipum Hvals bæði mat og drykk, en aðeins ef þær koma niður. Hann segir lögregluna ekki með neinar aðgerðir skipulagðar vegna mótmælanna. Skipin halda ekki út til veiða í dag vegna veðurs. 

Kristján Helgi Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðbogarsvæðinu, segir mótmælendurna tvo um borð í hvalveiðiskipum Hvals ekki vilja þiggja aðstoð niður. Hann segir að þeim hafi verið boðin matur og vatn, ef þær komi niður.

Spurður hvers vegna það eigi ekki að færa þeim vatn segist hann ekki vilja tjá sig um það að svo stöddu.

„Við höfum ekki fært þeim neinn búnað og það stendur ekki til,“ segir Kristján og að engin sérsveit sé á vettvangi og enginn sjúkrabíll. Eina lögreglan sem sé á vettvangi sé á vegum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

„Við erum búin að tala við mótmælendur. Þær hafa ekki óskað eftir aðstoð sjúkrabíls.“

Hann segir að lögreglan sé í rólegheitum að ræða við þær.

„Það er ekkert stress og við erum ekki að fara í neinar aðgerðir.“

Hann segist ekki hafa hugmynd um það hversu lengi lögreglan verður á vettvangi. En gert séð ráð fyrir að vera eins lengi og þær eru uppi.

„Þetta er hústökufólk við þessar aðstæður og við erum meira en tilbúin að aðstoða þær niður. Við erum búin að segja þeim að þær geta fengið mat og drykk hjá okkur. En það er bara ef þær koma niður, þá fá þær að drekka og borða.“


Tengdar fréttir

Bein út­sending: Mót­mælendurnir enn í tunnunum

Tveir mótmælendur sem hlekkjuðu sig fasta við tunnur á mastri tveggja hvalveiðiskipa í Reykjavíkurhöfn í gærmorgun sitja þar sem fastast. Vísir fylgist með mótmælunum í beinni útsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×