Innlent

Segir Vinstri græn hafa gert brott­hvarf sitt að skil­yrði

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jón Gunnarsson þegar hann kvaddi dómsmálaráðuneytið í júní.
Jón Gunnarsson þegar hann kvaddi dómsmálaráðuneytið í júní. Vísir/Vilhelm

Jón Gunnars­son, fyrr­verandi dóms­mála­ráð­herra, segir að þing­menn og ráð­herrar Vinstri grænna hafi gert kröfu um það að hann viki úr ríkis­stjórn gegn því að verja hann gegn van­trausts­til­lögu sem lögð var fram á þingi í vor. Hann segist ekki ætla að vera með­sekur með Svan­dísi Svavars­dóttur, mat­væla­ráð­herra í hval­veiði­málinu og telur hana hafa gerst brot­lega við lög.

Jón var gestur Þórarins Hjartar­sonar í hlað­varps­þættinum Ein pæling. Þar segir hann Vinstri græn skorta heilindi en Guð­rún Haf­steins­dóttir tók við af Jóni sem dóms­mála­ráð­herra í júní síðast­liðnum, en boðað hafði verið að hún myndi taka við af honum átján mánuðum eftir að ríkisstjórn var mynduð.

Jón segir í hlað­varpinu að þegar stjórnar­and­staðan hafi lagt fram van­trausts­til­lögu gegn honum á Al­þingi í lok mars hafi Vinstri græn ekki verið til­búin til að styðja hann nema með miklum trega. Hann segist sjálfur alltaf meta for­sendur fyrir slíkri til­lögu.

„Ég fékk nú á mig van­trausts­til­lögu í vor og heil­miklar yfir­lýsingar um það að ég væri búinn að brjóta lög og á grund­velli þess var borin á mig van­trausts­til­laga,“ segir Jón.

„Og sam­starfs­flokkarnir, meðal annars Vinstri græn, sem að Svan­dís er nú í, þau, með miklum trega, vörðu mig gagn­vart þessu van­trausti og sögðu mér að það væri nú ekkert sjálf­sagt að þau væru að gera það. Það voru bara skila­boðin sem að ég fékk beint frá þeim. Og mér var sagt það að þau hafi sett það sem skil­yrði að ef að ég yrði varinn þessu van­trausti af þeirra hálfu að þá yrði ég að víkja úr ríkis­stjórninni í vor.“

Vinstri græn hafi ekki starfað af heilindum

Jón segir að þegar ráð­herra gerist sekur um að brjóta gegn stjórnar­skrá, sé það sjálf­sagt að við­komandi ráð­herra víki. Hann segir allt benda til þess að Svan­dís hafi gerst brot­leg við lög. Sjálfur telur hann sig ekki hefði komist upp með slík vinnu­brögð.

Hann segist ekki ætla að taka á­byrgð á veg­ferð Svan­dísar í hval­veiði­málinu. Þá segir Jón að Vinstri græn hafi sýnt ó­heilindi í stjórnar­sam­starfinu á þessu kjör­tíma­bili.

„Ég var nú í eitt ár í samninga­við­ræðum við Vinstri græn um af­greiðslu út­lendinga­laganna, þar sem mér eigin­lega sveið mest í sam­starfi við þau á þessu kjör­tíma­bili, sem ég held að hafi verið svo­lítil ný­lunda, að það er að mér finnst skorta heilindi og mér fannst það öfug­mæli þegar for­sætis­ráð­herra kom í fjöl­miðla um daginn og sagði að þau störfuðu í þessu ríkis­stjórnar­sam­starfi af heilindum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×