Þrátt fyrir það hafnaði Stjarnan í þriðja sæti deildarinnar áður en deildinni er skipt upp í efri og neðri hluta. Liðið safnaði 29 stigum, 13 stigum minna en topplið Vals, og á enn tölfræðilegan möguleika á Íslandsmeistaratitlinum.
Stjörnukonur horfa þó líklega frekar á baráttuna um annað sæti deildarinnar. Liðið er fimm stigum á eftir Breiðablik í öðru sætinu og ef gengi þessara tveggja liða verður eins í úrslitakeppninni og það hefur verið undanfarna vikur nær Stjarnan að lauma sér upp fyrir Breiðablik í töflunni.
Stjarnan vann aðeins fimm leiki í fyrstu 14 umferðum tímabilsins og um tíma var ekki víst hvort liðið myndi ná að vinna sér inn sæti í efri hlutanum. Liðið hefur hins vegar unnið síðustu þrjá leiki og er taplaust í síðustu sex leikjum sínum. Síðasta tap Stjörnunnar í deildinni kom gegn Þrótti þann 8. júlí síðastliðinn.
„Þær voru ekki sjálfum sér líkar framan af móti og það vantaði mikið upp á hjá þeim,“ sagði Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, sérfræðingur Bestu markanna, um Stjörnuna í þætti gærkvöldsins.
„Það er aðeins að breytast núna og þrátt fyrir að það hafi vantað aðeins upp á heildina þá eru búnir að vera leikmenn í þessu liði sem eru búnir að vera góðir á þessu móti,“ bætti Bára við.
Stjörnukonur koma því líklega fullar sjálfstrausts inn í úrslitakeppnina þar sem liðið tekur á móti nýliðum FH í fyrsta leik næstkomandi föstudag. Næst tekur Stjarnan á móti ríkjandi Íslandsmeisturum Vals áður en liðið sækir Breiðablik heim í líklega mikilvægasta leik tímabilsins fyrir bæði lið þann 17. september.