Íslenski boltinn

Óli Jó sammála Óskari Hrafni: „Einhverjir stælar í þeim“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson skillti upp varaliði í leik Víkings og Breiðabliks í gær.
Óskar Hrafn Þorvaldsson skillti upp varaliði í leik Víkings og Breiðabliks í gær. vísir/hulda margrét

Ólafur Jóhannesson var hrifinn af því útspili Óskars Hrafns Þorvaldssonar, þjálfara Breiðabliks, að tefla fram varaliði í leiknum gegn Víkingi í Bestu deild karla í gær.

Breiðablik stendur í ströngu þessa dagana enda statt í miðju einvígi gegn Struga. Blikar unnu fyrri leikinn í Norður-Makedóníu með einu marki gegn engu. Liðin mætast öðru sinni í Kópavoginum á fimmtudaginn. Sigurvegarinn kemst í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Blikar sóttu um að leiknum gegn Víkingum í gær yrði frestað en fengu neitun. Breiðablik mætti seint til leiks gegn Víkingi í gær og tefldi fram varaliði. Það mátti sín lítils gegn ógnarsterkum Víkingum sem unnu 5-3 sigur.

Ólafur fór yfir leiki helgarinnar í Bestu deildinni í Tilþrifunum í gær. Hann kvaðst skilja afstöðu Blika.

„Ég er algjörlega sammála Óskari. Breiðablik átti að fá þessum leik frestað. Það er enginn vafi í mínum huga. Þeir gátu ekki spilað í landsleikjahléinu en einhvers staðar varð að finna leið til að spila hann,“ sagði Ólafur.

„Sem þjálfari hefði ég gert það sama og Óskar. Það er ljóst að enginn af þeim leikmönnum sem byrjuðu leikinn í kvöld [í gær] er að fara spila Evrópuleikinn. Ég held að það sé alveg ljóst. Ég hefði gert það sama. Það er hellingur undir, peningar og skemmtilegheit. Ég skil hann að því leytinu til og leikurinn kannski sem slíkur skiptir þá ekki miklu máli upp á hvar þeir enda í deildinni.“

Smá reikistefna var fyrir leikinn í Víkinni enda mættu Blikar seint til leiks og gáfu ekki upp byrjunarlið sitt fyrr en um hálftíma fyrir leik. Í viðtali fyrir leik skaut Óskar líka á Víking fyrir slakan árangur í Evrópuleikjum undanfarinna ára.

„Þetta eru bara einhverjir stælar í þeim. Það er líka pínulítið gaman að því,“ sagði Ólafur.

Breiðablik er í 3. sæti Bestu deildarinnar með 38 stig, átján stigum á eftir toppliði Víkings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×