Hallstatt, sem er að finna á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, þykir einstaklega fallegur bær, og telja íbúar einungis um sjö hundruð manns. Hins vegar er áætlað að um tíu þúsund ferðamenn leggi leið sína til bæjarins á hverjum degi.
Hallstatt er um sjötíu kílómetrum suðaustur af Salzburg. Í bænum er að finna eina elstu saltnámu í heimi auk þess að staðsetning og umhverfi bæjarins þykja einstaklega fögur. Hafa einhverjir haldið því fram að bærinn sé fyrirmynd bæjarins Arendell í Frozen-myndunum þó að aðstandendur myndanna neiti því.
Í frétt BBC segir að íbúar í bænum krefjist þess nú að takmarkanir verði settar á þann fjölda ferðamanna sem geti komið til bæjarins á hverjum degi og sömuleiðis að bann verði lagt við að ferðamannarútur komi til bæjarins eftir klukkan 17.
Á sama tíma og ferðamannastraumurinn hefur jákvæð áhrif á efnahag bæjarins þá vilja íbúar meina að ferðamenn séu einfaldlega allt of margir.