Innlent

Segir hefndar­brot gegn lög­­reglu við­vörunar­­merki fyrir sam­fé­lagið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur.
Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur. Vísir/Einar

Prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands segir í­kveikju í bíl lög­reglu­manns sem rann­sökuð er sem hefndar­að­gerð vera við­vörunar­merki fyrir lög­gæslu­yfir­völd og ís­lenskt sam­fé­lag. Hann segir of­beldis­brotum gegn lög­reglu þó ekki fara fjölgandi.

Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun en þar var Helgi Gunn­laugs­son, af­brota­fræðingur, gestur. Rætt var við hann um rann­sókn héraðs­sak­sóknara á í­kveikju í bíl lög­reglu­manns í vestur­bæ Reykja­víkur síðast­liðinn fimmtu­dag. Í­kveikjan er rann­sökuð sem hefndar­að­gerð og því sem brot gegn vald­stjórninni.

„Ef við skoðum of­beldis­brot gegn lög­reglu, þá höfum við ekki séð aukningu í slíkum málum síðustu misseri. Það hefur þó verið til staðar og þá er um að ræða of­beldi gegn lög­reglu­mönnum sem þá meiðast á vett­vangi við skyldu­störf,“ segir Helgi.

Hann segir dæmið frá því í síðustu viku, þar sem kveikt var í bíl lög­reglu­manns fyrir utan heimili hans, til­tölu­lega ein­stakt. Vonandi sé um að ræða ein­angrað at­vik.

„En þetta er samt sem áður ein­hvers­konar við­vörunar­merki fyrir lög­gæslu­yfir­völd og kannski líka okkur sem sam­fé­lag um það hvernig við ætlum að takast á við þessa þjóð­fé­lags­mynd sem er smám saman að myndast og verða til hjá okkur.“

Sam­fé­lagið sé orðið miklu marg­breyti­legra en það var heldur en til dæmis síðustu alda­mót. Nú séu ó­líkir menningar­straumar í ís­lensku sam­fé­lagi og segir Helgi mikil­vægt að lög­reglan sé næm á það hvernig taka megi á þeim straumum.

„Menn þurfa að vera næmir á þessa ó­líku þjóð­fé­lags­hópa og hafa skilning á að­stæðum þeirra og vera til þess búin að takast á við erfiðar að­stæður sem geta komið upp. Spurningin er alltaf hvers eðlis við­búnaður lög­reglu á að vera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×