Innherji

Hækkar vextina um 50 punkta og sendir harðan tón vegna hættu á „þrálátri“ verðbólgu

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Peningastefnunefnd Seðlabankans gekk lengra en flestir greinendur og markaðsaðilar höfðu spáð fyrir um þegar hún hækkaði meginvexti bankans um 50 punkta í morgun, úr 8,75 prósentum í 9,25 prósent, og vísaði til þess að þrátt fyrir að mæld verðbólga hafi komið niður að undanförnu þá eru verðbólguhorfur til lengri tíma nánast óbreyttar. Hætta er á þrálátri verðbólgu og nefndin telur því nauðsynlegt að herða taumhaldið enn frekar á næstunni. 

Þetta er fjórtánda vaxtahækkun peningastefnunefndarinnar í röð frá því að hún hóf vaxtahækkunarferli bankans á vormánuðum ársins 2021. Eftir vaxtahækkunina í morgun hafa meginvextir Seðlabankans ekki verið eins háir síðan í árslok 2009.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun er nefnt að verðbólgan hefur farið lækkandi. Framlag húsnæðisliðarins til verðbólgu minnkað, dregið hefur úr alþjóðlegum verðhækkunum og gengi krónunnar hækkað. Á mótu hafa hins vegar innlendar verðhækkanir reynst þrálátar og eru enn á breiðum grunni. Undirliggjandi verðbólga hefur því minnkað hægar en mæld verðbólga og var 6,7 prósent í júlí.

Þá bætir nefndin við að hagvöxtur hafi verið um 7 prósent á fyrsta fjórðungi og atvinnuleysi, sem mælist undir 3 prósent, er enn að minnka. Það sé því „töluverð spenna“ á vinnumarkaði og í þjóðarbúinu í heild þótt vísbendingar eru um að tekið sé að hægja á vexti efnahagsumsvifa. 

Mikil óvissa var á meðal markaðsaðila hversu stórt skref peningastefnunefndin myndi taka að þessu sinni. Skiptar skoðanir voru á því hvort lækkandi verðbólga og kólnun á húsnæðismarkaði, ásamt vísbendingum um minnkandi einkaneyslu, væru nægjanlegt tilefni fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans til að fara í minnstu mögulegu vaxtahækkun eftir þann harða tón sem hún sendi frá sér í lok maí.

Verðbólguhorfur til lengri tíma hafa lítið breyst þótt horfur til skamms tíma hafi batnað frá því í maí. Þá eru verðbólguvæntingar til lengri tíma vel yfir markmiði.

Naumur meirihluti markaðsaðila vænti þess, samkvæmt könnun Innherja fyrir helgi, að vextir bankans yrðu hækkaðir um 25 punkta á á meðan aðrir töldu að hann ætti engra annarra kosta völ en að ráðast í 50 punkta hækkun með hliðsjón af óbreyttu verðbólguálagi og mikilvægi þess að ná upp raunstýrivöxtum.

Í rökstuðningi peningastefnunefndar fyrir því að ráðast í 50 punkta hækkun – hún kemur kjölfar 125 punkta hækkunar í lok maímánaðar – er vísað til þess að verðbólguhorfur til lengri tíma hafi lítið breyst þótt horfur til skamms tíma hafi batnað frá því í maí. Þá eru verðbólguvæntingar til lengri tíma vel yfir 2,5 prósenta markmiði. „Því er enn hætta á að verðbólga reynist þrálát,“ að sögn nefndarinnar, sem bætir við í lokin:

„Í ljósi þess er nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Einkum er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Vísbendingar eru um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram og mun peningastefnan á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“



Verðbólgan hefur komið niður í sumar – tólf mánaða verðbólgan hefur farið úr 10,2 prósentum í 7,6 prósent – og þá virðist húsnæðismarkaðurinn vera botnfrosinn. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,1 prósent milli mánaða í júní og um 0,8 prósent í júlí. Árshækkun vísitölunnar er þannig komin niður í 0,8 prósent og hefur ekki verið lægri síðan í ársbyrjun 2011.

Í könnun Innherja kom fram í rökstuðningi þeirra sem mátti flokka sem vaxtahauka, og spáðu fyrir um 50 punkta hækkun, að stutt væri í viðræður við um nýja kjarasamninga þar sem forystufólk verkalýðsfélaganna hefði haft uppi stór orð um miklar launahækkanir.

„Og á meðan hér er ekkert atvinnuleysi þá er líklegt að laun haldi áfram að hækka með tilheyrandi verðlagshækkunum í kjölfarið. Við erum því miður að eiga við víxlverkun launa og verðlags sem verður sársaukafullt að stöðva,“ sagði einn vaxtahaukur.

Peningastefnunefndin hafi verið harðorð á síðasta fundi í maí og gefið skýr skilaboð sem hún yrði að standa við. Að öðrum kosti myndi hún „líta mjög kjánalega út,“ nefndi einn þáttakandi sem átti von á 50 punkta hækkun, og hélt áfram:

„Eina breytingin frá síðasta fundi er að verðbólgan hefur komið heldur hraðar niður en búist var við og Seðlabankinn mun því bara þurfa að hækka vexti um 50 punkta og ætti það að vera hans síðasta vaxtabreyting í þessu vaxtahækkunarferli. En það er að því gefnu að verðbólgan haldi áfram að hjaðna og Seðlabankinn sjái þannig raunstýrivextina hækka áfram í haust sem er nauðsynlegt til að hægja á ofhitnun í hagkerfinu. Vaxtamunur við útlönd hefur í rauninni verið að minnka frá síðasta fundi og langtímaraunvextir hér eru þeir sömu og í Bandaríkjunum sem gengur ekki upp. Langtímaverðbólguvæntingar eru enn vel yfir markmiði Seðlabankans og fimm ára framvirkar verðbólguvæntingar til fimm ára eru jafnframt að gefa til kynna að markaðurinn hafi ekki trú á því að verðbólgan náist neitt í markmið jafnvel þó horft sé nokkur ár fram í tímann.“


Tengdar fréttir

Háar verð­bólgu­væntingar knýja her­skáan Seðla­banka í 50 punkta vaxta­hækkun

Fyrri yfirlýsingar peningastefnunefndar gefa skýrt til kynna að nefndin sé í „kapphlaupi við tímann“ um að ná niður verðbólgu og verðbólguvæntingum, sem hafa lítið breyst frá síðustu vaxtahækkun, áður en kjaraviðræður hefjast og því er útlit fyrir að vextir Seðlabankans hækki um 0,5 prósentur í næstu viku, að mati greiningar Arion banka. Misvísandi merki eru um að farið sé að hægja á innlendri eftirspurn en hagfræðingar Arion vara við því að hætta sé á að vaxtahækkanir „gangi of langt“ og nefndin vanmeti mögulega skaðlegu áhrifin af þeim á hagkerfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×