Mikið hefur verið rætt og ritað um rembingskoss sem Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, rak Jennifer Hermoso eftir úrslitaleik HM í fyrradag. Spánverjar unnu leikinn með einu marki gegn engu og urðu þar með heimsmeistarar í fyrsta sinn.
Ekki nóg með að Rubiales hafi kysst Hermoso á munninn því hann hélt áfram að kyssa leikmenn spænska liðsins niðri á vellinum, þar á meðal Olgu Carmona sem skoraði eina markið í úrslitaleiknum. Þá greip Rubiales um klofið á sér þegar hann fagnaði heimsmeistaratitlinum í heiðursstúkunni. Skammt frá stóð spænska drottningin.
Jorge Vilda, þjálfari spænska liðsins, kom sér einnig í fréttirnar fyrir ósæmilega hegðun eftir úrslitaleikinn. Eftir að Carmona skoraði markið í úrslitaleik greip Vilda nefnilega í brjóst samstarfskonu sinnar í spænska þjálfaraliðinu. Hann kom fyrst við öxlina á henni en færði hana svo á brjóstið.
Vilda er umdeildur en frægt er þegar fimmtán leikmenn spænska landsliðsins skrifuðu undir bréf þar sem þjálfunaraðferðir hans voru harðlega gagnrýndar og að hann hafi haft slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu leikmanna.
Aðeins örfáir af leikmönnunum fimmtán sem sendu bréfið voru í heimsmeistaraliði Spánar. Þá vakti það talsverða athygli að leikmenn liðsins fögnuðu ekki með Vilda og starfsliðinu eftir úrslitaleikinn.