Skytturnar þurftu víta­spyrnu til að sækja stigin þrjú gegn Palace

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fyrirliðinn tryggði sigurinn.
Fyrirliðinn tryggði sigurinn. Mike Hewitt/Getty Images

Arsenal, silfurlið ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, vann nauman 1-0 útisigur á Crystal Palace í kvöld. Markið kom úr vítaspyrnu í síðari hálfleik.

Arsenal stillti upp sóknarsinnuðu liði í dag með þá Martin Ödegaard og Kai Havertz á miðjunni ásamt Declan Rice. Það gekk þó ekkert of vel hjá gestunum að brjóta þétta vörn heimamanna á bak aftur og var staðan markalaus í hálfleik.

Í þeim síðari fengu gestirnir vítaspyrnu eftir að þeir tóku aukaspyrnu fljótt og Sam Johnstone, markvörður Palace, braut í kjölfarið af sér. Ödegaard fór á punktinn og skoraði örugglega.

Takehiro Tomiyasu nældi sér síðan í tvö gul spjöld á sjö mínútna kafla og Arsenal manni færri í rúman hálftíma ef uppbótartími er talinn með. Það tókst Palace-mönnum ekki að nýta sér og vann Arsenal 1-0 útisigur.

Arsenal er með sex stig að loknum tveimur umferðum á meðan Palace er með þrjú.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira