Íslenski boltinn

Ó­sam­mála Rúnari: „Menn reyna að klekkja á liðinu sem er á toppnum“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Gunnlaugsson skilur ummæli Rúnars en er þeim ósammála.
Arnar Gunnlaugsson skilur ummæli Rúnars en er þeim ósammála. Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, er ósammála ummælum Rúnars Kristinssonar, þjálfara KR, um meintan grófleika Víkinga eftir leik liðanna í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í gær. Hann skilur þó af hverju Rúnar lét ummælin falla.

„Maður veit hvernig miðverðir Vík­ings fá að spila og hafa gert í allt sum­ar. Ef menn fá að hrinda eins og þeir vilja og það er aldrei dæmt, er það eitt­hvað sem dóm­ara­stétt­in þarf að skoða og leyfa þá fleir­um að ýta,“ hafði mbl.is eftir Rúnari í gær.

„En sumir leikmenn, og sérstaklega einn leikmaður Víkings má hrinda í bakið á öllum leikmönnum allan leikinn og fær ekkert fyrir það og labbar út af án þess að fá spjald,“ sagði Rúnar þá við Fótbolti.net og átti þar við Oliver Ekroth, varnarmann Víkings.

Víkingur vann leik gærdagsins 4-1 og er komið í úrslit bikarkeppninnar hvar þeir mæta KA í september. Ummæli Rúnars voru borin undir Arnar sem hefur heyrt slíkt áður.

„Þetta eru svo sem ekki fyrstu ummælin um okkar leikmenn eftir leiki, hvað þá eftir tapleiki andstæðingsins. Þá vilja menn benda á ákveðna hluti sem hefðu getað haft áhrif. Við erum alveg vel harðir en ég held við séum ekki grófir, við förum ekki í leiki til að meiða menn. En við erum með mjög physical lið,“

„Ég er ekki sammála ummælunum. En ég skil ummælin og af hverju þau komu. Miðað við úrslit leiksins skil ég þetta,“ segir Arnar.

Spjöldum fjölgað eftir ummæli Heimis

Arnar segir að Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, hafi látið álíka ummæli falla fyrr í sumar. Í kjölfarið hafi spjöldumVíkinga fjölgað mjög.

„Heimir kom líka með svona ummæli eftir leik okkar við FH fyrr í sumar. Þessir gaurar eru bara topp þjálfarar og klókir. Menn vekja athygli á hlutum, reyna að ná í ákveðið forskot til að reyna að klekkja á liðinu sem er á toppnum. Ég myndi gera nákvæmlega sama ef ég væri í þeirra sporum. Þetta eru bara klókir gaurar og toppþjálfarar,“

„Það sem gerðist eftir ummæli Heimis var að við byrjuðum að fá gul spjöld og rauð spjöld en höfðum verið prúðasta liðið í deildinni fram að því. Þetta er klókt en það er líka dómaranna að sjá í gegnum þetta,“ segir Arnar.

Varðandi Oliver Ekroth segir Arnar hann ekki komast upp með meira en aðrir í deildinni.

„Nei. Oliver er með afburða styrk og hefur spilað svona síðan hann var tíu ára. Hann fékk dæmt á sig víti í meistarar meistaranna og þá tókum við fund með honum og fórum yfir þessa hluti. Hann á til að dansa á línunni og það er ekkert flóknara en það. Hann er alls ekki grófur,“ segir Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×