Fótbolti

Al Hilal byrjar á sigri þökk sé þrennu frá Malcom

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bæng og mark.
Bæng og mark. Yasser Bakhsh/Getty Images

Það er ljóst að knattspyrnumaðurinn Malcom kann vel við sig í Sádi-Arabíu en hann skoraði þrennu er lið hans Al Hilal hóf tímabilið þar í landi á sigri. Lið Karim Benzema, Al Ittihad, byrjar tímabilið á 3-0 sigri en franski framherjinn komst ekki á blað.

Hinn 26 ára gamli Malcom er ekki stærsta nafnið sem gekk í raðir deildarinnar í sumar en hann byrjar af miklum kraft. Hann gekk í raðir Barcelona árið 2018 en yfirgaf félagið ári síðar og samdi þá við Zenit St. Pétursborg í Rússlandi.

Al Hilal festi svo kaup á honum í sumar og var hann einn þriggja erlendra leikmanna í byrjunarliði Al Hilal þegar liðið sótti Abha heim í dag. Hinir tveir voru Rúben Neves frá Portúgal og Michael frá Brasilíu.

Malcom kom gestunum yfir en Saad Bguir jafnaði metin óvænt fyrir heimamenn eftir undirbúning Pólverjans Grzegorz Krychowiak. Í síðari hálfleik bætti Malcom við tveimur mörkum og þar við sat.

Benzema var ekki á skotskónum í sínu liði en ásamt honum voru þeir N‘Golo Kanté og Fabinho í byrjunarliðinu. Hinn brasilíski Igor Coronado stal hins vegar fyrirsögnunum en hann skoraði tvívegis í öruggum 3-0 sigri liðsins á Al Raed.

Deildin í Sádi-Arabíu er nýfarin af stað en síðar í kvöld hefja Cristinao Ronaldo og félagar í Al Nassr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×