Sport

Bergrós eftir að hafa nælt í bronsið: „Vildi enda þetta með stæl“

Aron Guðmundsson skrifar
Bergrós Björnsdóttir náði mögnuðum árangri á heimsleikum Crossfit á dögunum
Bergrós Björnsdóttir náði mögnuðum árangri á heimsleikum Crossfit á dögunum

Bergrós Björns­dóttir tryggði sér í gær brons­verð­laun í flokki sex­tán til sau­tján ára stelpna á heims­leikum Cross­fit sem fram fara í Banda­ríkjunum þessa dagana. Þetta er í annað sinn sem Bergrós mætti til leiks á heims­leikum Cross­Fit og gekk hún í gegnum allan til­finninga­skalann í þetta skipti því strax á fyrsta keppnis­degi lenti hún í erfiðri reynslu. Fékk hita­slag.

„Við þurftum sem sagt að taka þátt í tveimur keppnis­greinum með mjög stuttu milli­bili og eftir fyrri greinina fór ég að finna fyrir örari hjart­slætti og þurfti um leið að keyra á næstu grein,“ segir Bergrós um stundina erfiðu þegar að hún fór að finna fyrir ein­kennum hita­slag.

„Í miðri seinni greininni fór mér að líða mjög skringi­lega, mér fannst eins og líkaminn væri að bregðast mér. Ég átti mjög erfitt andar­drátt og leið bara ó­geðs­lega illa. Þegar sú æfing var að fara klárast fann ég hvernig það slökknaði bara alveg á líkamanum og ég bara gat ekki haldið á­fram.

Starfs­lið heims­leikanna þurfti að bera mig út af keppnis­gólfinu og það kom mér um leið í ís­kalt bað til þess að kæla líkamann niður. Ég hélt að með þessu væri ég búinn að klúðra tæki­færi mínu í keppninni því með því að ná ekki að klára endaði ég í tíunda sæti greinarinnar og fékk fá stig.“

Hafði engu að tapa

En svo kom á daginn að enn voru mögu­leikar á sæti á verð­launa­palli og á loka keppnis­deginum setti Bergrós í flug­gír, endaði í 2.sæti í næst­síðustu greininni og gerði sér svo lítið fyrir og vann loka­grein mótsins.

„Þessir þrír dagar ein­kenndust af miklum hæðum og lægðum og keppnin á milli okkar stelpnanna var mjög jöfn. Við vorum fimm eða sex stelpur að keppa um sæti á verð­launa­pallinum og áttum allar mjög góðan mögu­leika.“

„Tvær síðustu greinar leikanna voru mjög góðar fyrir mig og ég vissi það alveg. Þær pössuðu mjög vel við mína styrk­leika og ég var bara mjög örugg með sjálfa mig fyrir allar þessar hreyfingar, vissi að ég gæti staðið mig vel.

Ég hafði engu að tapa, keyrði því bara á þetta og vonaði það besta. Vildi bara enda þetta með stæl.“

„Vil eiga langan og góðan feril“

Til­finningin eftir að hafa sigrað loka­grein mótsins og tryggt sér þriðja sætið er ó­lýsan­leg að sögn Bergrósar.

„Þetta er það besta sem ég veit um og er full­kominn endir á tíma­bilinu fyrir mig, þetta hefur verið erfitt tíma­bil og ég er enn að með­taka þetta. Ég er mjög á­nægð með allt saman og stolt af sjálfri mér fyrir það hvernig ég tókst á við bakslög á mótinu.“

Virki­lega flottur árangur hjá Bergrós svona snemma á ferlinum. Hverju viltu á­orka í fram­haldinu, hvert stefnirðu?

„Ég vil eiga langan og góðan feril í Cross­Fit, langar að verða at­vinnu­kona í í­þróttinni alveg 100%. Ég ætla því að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að ná því mark­miði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×