Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Þór/KA 4-2 | Blikar skutu sér á toppinn

Kári Mímisson skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Það var heldur stutt Verslunarmannahelgi fyrir leikmenn Breiðabliks og Þór/KA sem mættust í dag á Kópavogsvelli. Eftir frábæran fótboltaleik voru það heimakonur sem tóku stigin þrjú og tylltu sér í leiðinni á toppinn.

Gestirnir að norðan byrjuðu leikinn betur í dag og komust yfir á 12. mínútu leiksins. Það gerði fyrirliðinn Sandra María Jessen eftir frábæra sendingu frá Huldu Ósk Jónsdóttir. Amalía Árnadóttir náði að þræða Huldu í gegn sem vissi að Sandra myndi alltaf mæta á fjærstöngina sem og hún gerði þar sem hún potaði boltanum fram hjá Telmu í marki Blika.

Áfram voru það gestirnir sem voru sterkari aðili leiksins eftir markið og fékk Ísfold Marý Sigtryggsdóttir ágætis færi til að tvöfalda forystu þeirra en því miður náði hún ekki valdi á boltanum eftir fyrirgjöf Huldu Ósk.

Breiðablik kom sér betur inn í leikinn þegar um hálftími var liðinn af leiknum og fékk nokkur hættulega færi. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir átti skot í slána og svo fékk Agla María Albertsdóttir hörku færi en skot hennar fór rétt yfir. Staðan í hálfleik því 1-0 fyrir gestina.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti en lentu í því óhappi að missa fyrirliða sinn út af þegar Ásta Eir Árnadóttir fór meidd af velli. Þetta gæti verið mikið áfall fyrir liðið en úrslitaleikur Mjólkurbikarsins er á föstudaginn og ólíklegt að Ásta verði með þar. Toni Pressley var ekki með liðinu í dag og því spurning að sjá hvernig vörn Blika verði á föstudaginn.

Heimakonur jöfnuðu leikinn eftir rúmlega klukkutíma leik og þar var að verkum nýjast leikmaður liðsins, Linli Tu sem skallaði góða sendingu frá Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur í markið. Linli var svo aftur að verki 10 mínútum seinna. Þung sókn Blika skilaði þeim marki þegar Írena Héðinsdóttir átti þá sendingu inn á teig. Boltinn virtist vera á leiðinni út af en Andrea Rut Bjarnadóttir náði að halda honum inn á og leggja hann á Linli Tu sem skoraði annað mark sitt í leiknum og það þriðja í jafn mörgum leikjum fyrir Breiðablik.

Norðanstúlkur gáfust ekki upp og tókst þeim að jafn leikinn á 79. mínútu þegar varamaðurinn Bríet Jóhannsdóttir skoraði í nánast í fyrstu snertingu sinni í leiknum. Hulda Ósk Jónsdóttir náði að senda boltann inn fyrir vörn Breiðabliks á Söndru Maríu sem var fljót að átta sig á því að Bríet væri alein á teignum. Bríet gerði svo allt rétt og jafnaði fyrir gestina.

En Breiðablik sýndi yfirvegun og ró á lokamínútunum þar sem liðið skoraði tvö mörk. Katrín Ásbjörnsdóttir kom liðinu yfir með skalla eftir frábæra hornspyrnu frá Öglu Maríu Albertsdóttur. Það var svo Birta Georgsdóttir sem innsiglaði sigurinn fyrir Breiðablik með laglegu marki. 4-2 sigur Breiðabliks staðreynda sem í leiðinni tylla sér á toppinn allavegana um stundarsakir.

Af hverju vann Breiðablik?

Gæðin í Blikum eru mjög mikil og sýndi liðið það í dag. Norðanstúlkur gátu vissulega tekið stig hér í dag en ég held að það hafi verið gæðamunurinn sem skyldi liðin að í dag.

Hverjar stóðu upp úr?

Hjá Þór/KA voru þær Sandra María Jessen og Hulda Björg Hannesdóttir frábærar. Þær þekkja hvor aðra auðvitað út og inn og virkilega gaman að sjá þær í dag. Linli Tu var flott í dag hjá Blikum og svo verð ég að hrósa innkomu Birtu Georgsdóttur, Andreu Rut Bjarnadóttur og Hafrúnar Rakelar Halldórsdóttur.

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikurinn hjá Breiðablik var ekki góður og í fullkomnum heimi hefði Þór/KA átt að klára leikinn þar eða í það minnsta fara inn með stærra forskot.

Hvað gerist næst?

Norðanstúlkur fá Íslandsmeistara Vals í heimsókn þriðjudaginn 15. ágúst klukkan 19:15. Breiðablik er á leiðinni í úrslitaleik Mjólkurbikarsins þar sem liðið mætir Víkingsstúlkum. Úrslitaleikurinn verður á föstudaginn og hefst klukkan 19:00.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA.Vísir/Vilhelm

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA var vonsvikinn í leikslok. Liðið hans spilaði á köflum mjög flottan fótbolta og var alls ekki langt frá því að taka stig héðan úr Kópavogi í dag.

„Vonbrigði. Mér fannst þetta ekki sanngjarnt. Þegar þú ert að spila á móti liðum sem hafa svona leikmenn innanborðs eins og Breiðablik hefur og geta klárað leiki þá máttu ekki gera mistökin sem að við gerðum í dag og verður til þess að þær ná að skora fjögur mörk. Það er allt of mikið miða við hvernig þær spiluðu í dag.Blikar eru með gott lið og vildu vinna leikinn alveg eins og við. Það er ekki hægt að ætlast til þess að við komum hingað og stýrum leiknum í 90 mínútur. Við héldum Blikunum að stærstu leyti í skefjum og á þeim stað sem við vildum hafa þær en því miður náðum við ekki að nýta þær stöður og þau svæði betur sem að við fengum nógu vel. Að skora tvö mörk í Kópavogi á samt að vera nóg.“

Bríet Jóhannsdóttir var rétt kominn inn á þegar hún jafnaði leikinn. Hvað þótti þjálfaranum um frammistöðu þessa unga og efnilega leikmanns í dag?

„Hún er ein af þessum ungu og efnilegu sem eru að koma inn hjá okkur. Hún hefur staðið sig mjög vel og unnið fyrir sínum mínútum. Þetta snýst um að vera klár þegar að tækifærið kemur og hún var svo sannarlega klár í dag og gerði þetta vel. Það er alveg hrikalega svekkjandi fyrir okkur og hana líka að þetta hafi ekki dugað fyrir einu sterku stig hér á útivelli.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira