Fótbolti

Spænskur lands­liðs­maður þeytir skífum ber að ofan í stofunni heima

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Borja Iglesias, eða DJ Panda.
Borja Iglesias, eða DJ Panda. vísir/getty

Borja Iglesias, framherja Real Betis og spænska landsliðsins í fótbolta, er fleira til lista lagt en að skora mörk. Hann er nefnilega vinsæll plötusnúður.

Iglesias skoraði fimmtán mörk fyrir Betis á síðasta tímabili og hefur spilað tvo leiki fyrir spænska landsliðið.

Flestir myndu láta það nægja en ekki Iglesias. Hann þeytir nefnilega skífum í stofunni heima hjá sér og það sem meira er, ber að ofan. Iglesias birtir myndböndin á TikTok þar sem hann er með næstum því fjögur hundruð þúsund fylgjendur.

Iglesias treður upp í stofunni heima undir listamannsnafninu DJ Panda. Hann hefur verið kallaður Panda í mörg ár og nafnið kemur úr lagi með rapparanum Desiigner.

Nýverið blandaði Iglesias, eða DJ Panda, saman lögunum „In Da Club“ með 50 Cent og „Barbie Girl“ með Aqua við góðar undirtektir fylgjenda sinna. Greinilega hæfileikaríkur maður.

Iglesias, sem er þrítugur, hefur leikið með Betis undanfarin fjögur ár, alls 163 leiki og skorað fimmtíu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×