Fótbolti

Sádarnir beina athyglinni að Osimhen og gera honum tjúllað tilboð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Victor Osimhen með andlitsgrímuna sem er orðin eins konar einkennismark hans.
Victor Osimhen með andlitsgrímuna sem er orðin eins konar einkennismark hans. getty/Jonathan Moscrop

Fyrst Kylian Mbappé hefur ekki áhuga á að ganga í raðir Al Hilal í Sádi-Arabíu hefur félagið beint athygli sinni að Victori Osimhen og gert honum sannkallað risatilboð.

Osimhen er einn eftirsóttasti framherji heims eftir frábæra frammistöðu með Napoli á síðasta tímabili. Hann skoraði þá 26 mörk í 32 leikjum í ítölsku úrvalsdeildinni og átti stóran þátt í því að Napoli varð meistari í fyrsta sinn í 33 ár.

Al Hilal reyndi að fá Mbappé en hann hafði engan áhuga á að fara til Sádi-Arabíu. Nú horfa forráðamenn Al Hilal til Osimhens og ku hafa boðið 120,3 milljónir punda í Nígeríumanninn. 

Ekki nóg með það heldur hefur Al Hilal boðið Osimhen eina milljón punda í vikulaun. Það gerir rúmlega 169 milljónir króna, hvorki meira né minna.

Napoli hefur engan áhuga á að selja Osimhen og hefur sett 170 milljóna punda verðmiða á framherjann. Al Hilal þarf því væntanlega að hækka tilboð sitt enn frekar til að freista Napoli.

Osimhen, sem er 24 ára, kom til Napoli frá Lille fyrir þremur árum. Hann hefur skorað 59 mörk í 101 leik fyrir ítalska félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×