Íslenski boltinn

Vatnaskil hjá KR eftir útreiðina á Hlíðarenda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR mátti þola niðurlægjandi tap fyrir Val í fyrri leik liðanna. Síðan þá hefur leiðin legið upp á við hjá þeim svörtu og hvítu.
KR mátti þola niðurlægjandi tap fyrir Val í fyrri leik liðanna. Síðan þá hefur leiðin legið upp á við hjá þeim svörtu og hvítu. vísir/diego

Gengi KR tók stakkaskiptum eftir að liðið steinlá fyrir Val, 5-0, í Bestu deild karla í byrjun maí.

KR tekur á móti Val í Bestu deildinni klukkan 19:15 í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem liðin mætast síðan Valsmenn tóku KR-inga í karphúsið 7. maí síðastliðinn.

Valur vann leikinn 5-0 en þetta var fjórða tap KR í röð. Eftir það gerði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, breytingar á uppstillingu liðsins sem hafa sannarlega borgað sig.

Eftir að hafa spilað með fjögurra manna vörn í upphafi tímabilsins, og nánast alltaf undir stjórn Rúnars, breytti hann yfir í þriggja manna vörn fyrir næsta leik KR, gegn Breiðabliki. Hann tapaðist reyndar, 0-1, en batamerkin á KR-liðinu voru augljós.

KR fór í kjölfarið á mikið flug og var ósigrað í átta deildarleikjum í röð og vann auk þess tvo leiki í Mjólkurbikarnum. Alls voru þetta því tíu leikir í röð án taps hjá KR-ingum sem klifu upp töfluna í Bestu deildinni og komust í undanúrslit Mjólkurbikarsins.

Á endanum tapaði KR, fyrir Víkingi í hörkuleik, 1-2, í síðustu umferð. Það var fyrsta tap KR í rúma tvo mánuði.

KR-ingar fá svo aftur tækifæri til að komast á beinu brautina í kvöld þegar þeir fá Valsmenn í heimsókn.

Leikur KR og Vals hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×