Erlent

Lýsir sig leiðtoga eftir valdarán

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Nýr leiðtogi Níger, Abdourahamane Tchiani, ávarpaði landsmenn Níger í ríkissjónvarpinu.
Nýr leiðtogi Níger, Abdourahamane Tchiani, ávarpaði landsmenn Níger í ríkissjónvarpinu. skjáskot

Hershöfðinginn Abdourahmane Tchiani hefur lýst því yfir að hann fari nú með völdin í vesturafríkuríkinu Níger. Tchiani leiddi valdarán gegn ríkisstjórn landsins og tókst að steypa henni af stóli fyrir tveimur sólarhringum síðan, með liðsinni öryggisvarða forsetans sem eru undir hans stjórn.

Hópur hermanna tilkynnti það í beinni útsendingu aðfararnótt fimmtudags að herinn væri búinn að steypa ríkisstjórn landsins af stóli. Hermennirnir sögðu öryggissveitir hafa tekið yfir stofnanir landsins og hvöttu utanaðkomandi aðila til að skipta sér ekki af.

„Þetta er afleiðing versnandi öryggisaðstæðna og slæmrar efnahags- og félagsstjórnar,“ sagði Amadou Abdramane, ofursti, í ávarpi hópsins í sjónvarpinu.

Í frétt BBC segir að hershöfðinginn Tchiani sé heilinn á bakvið valdaránið. 

Sjá einnig: Herinn í Níger segist hafa tekið völdin

Valdaránið setur lýðræðisumbætur í landinu í algjört uppnám. Forseti Níger Mohamed Bazoum er enn í haldi uppreisnarmanna en hann varð árið 2021 sá fyrsti til að vera lýðræðislega kjörinn í landinu. Valdaránið hefur verið fordæmt víða um heim, meðal annars af einingarsamtökum Afríku, Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum.

Franska sendiráðið í Níger sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fullum stuðningi er lýst yfir við forsetann Bazoum. Frakkar, fyrrverandi nýlenduherrarnir, muni ekki viðurkenna neinn annan sem forseta landsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×