Fótbolti

Frumbyggjar gagnrýna mótshaldara í Ástralíu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Steph Catley, sem skoraði í fyrsta leik Ástralíu á mótinu, tekur undir gagnrýnina.
Steph Catley, sem skoraði í fyrsta leik Ástralíu á mótinu, tekur undir gagnrýnina. Getty

Hópur fótboltamanna af frumbyggjaættum hefur skrifað bréf til ástralska fótboltasambandsins og Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, vegna skorts á fjárstuðningi. Slíkt eigi að tilheyra arfleifð heimsmeistaramóts kvenna sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi þessi dægrin.

Fánar frumbyggja hafa verið til sýnis samhliða þeim ástralska á mótinu, en hópurinn sem stendur að bréfaskrifunum gagnrýnir að af þeim 291 milljón ástralskra dala (197 milljónir bandaríkjadala/25,9 milljarðar íslenskra króna), sem hafi verið lagðar til hliðar til uppbyggingar knattspyrnu í landinu eftir HM, sé ekki eitt einasta sent eyrnamerkt knattspyrnu frumbyggja.

„Þrátt fyrir að frumbyggjamenning, tákn, hefðir og athafnir hafi verið til sýnis á HM og menning frumbyggja auglýst sem eitthvað sem er mikilvægt fyrir fótbolta, hefur ekki einn dalur af arfleifðaráætluninni verið lagður til stofnana sem eru undir forystu frumbyggja og hafa lengi borið byrðarnar fyrir ‚fyrstu þjóðirnar‘ í ástralska leiknum,“ segir í bréfi frá frumbyggjaráðinu í Ástralíu.

Allur stuðningur og opinberar sýningar á táknum og menningu frumbyggja í kringum mótið séu því fyrir ímyndina eina saman. Gjörðir verði að fylgja.

Sameinist fyrir frumbyggja, segir á fyrirliðabandinu sem Catley bar í fyrsta leik.Getty

„Auðvitað er þetta mikilvægt fyrir grasrótarfótbolta,“ er haft eftir Steph Catley, leikmanni Arsenal og fyrirliða ástralska liðsins.

„Ef fjármagnið er til ætti það algerlega að fara í þá átt. Þetta er eitthvað sem liðið okkar hefur ástríðu fyrir. “

Tveir leikmenn í ástralska landsliðinu eru af frumbyggjaættum; Lydia Williams, markvörður Brighton og Kyah Simon, framherji Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×